Góðar leiðir til þess að tala við börn um stríð

Börn komast ekki hjá því að heyra af þeim stríðsátökum sem nú eiga sér stað í Úkraínu. Slíkar fregnir geta leitt til mikillar óvissu, kvíða og ótta sem bregðast þarf við.

Ane Lemche, sálfræðingur og ráðgjafi hjá Barnaheillum – Save the Children, segir að börn um allan heim hafi ef til vill ekki skilning á því sem er að gerast í Úkraínu og að hjá þeim kunni að vakna spurningar um þær myndir, sögur og umfjöllun sem þau verða áskynja.

Fyrri rannsóknir Barnaheilla – Save the Children á átökum, svo sem í Írak og Sýrlandi, hafa varpað ljósi á átakanlegar frásagnir af börnum sem eru skelfingu lostin vegna sprenginganna og loftárásanna, þau þjást af kvíða fyrir framtíðinni og eru ósátt við að geta ekki farið í skóla. Meirihluti barna sýndi merki um alvarlega tilfinningalega vanlíðan.

Það sem er að gerast í Úkraínu getur verið ógnvekjandi fyrir bæði börn og fullorðna. Að hundsa eða forðast umræðuefnið getur leitt til þess að börn finni fyrir óöryggi og hræðslu sem getur haft áhrif á heilsu þeirra og líðan. Það er nauðsynlegt að ræða á opinn og heiðarlegan hátt við börn til að hjálpa þeim að vinna úr því sem er að gerast, segir Lemche.

Barnaheill – Save the Children deila eftirfarandi fimm ráðum sem geta komið sér vel þegar rætt er við börn:

1. Gefðu þér tíma og hlustaðu þegar barnið vill tala

Gefðu barninu svigrúm til að segja þér hvað það veit, hvernig því líður og spyrja þig spurninga. Barnið gæti hafa myndað sér allt aðra mynd af ástandinu en staðreyndir gefa í skyn. Gefðu þér tíma til að hlusta á allar vangaveltur barnsins og það sem það hefur skynjað, séð eða heyrt.

2. Sérsníddu samtalið að barninu

Hafðu í huga aldur barnsins þegar þú ræðir við það. Ung börn skilja kannski ekki hvaða merkingu átök eða stríð hefur og þurfa útskýringar í samræmi við aldur og þroska. Gættu þess að útskýra ekki ástandið of ítarlega eða fara of mikið í smáatriði því það getur valdið óþarfa kvíða hjá barninu. Yngri börn geta verið ánægð með það eitt að skilja að stundum eiga lönd í stríði. Eldri börn eru líklegri til að skilja hvað stríð merkir en geta samt haft gott af því að tala um ástandið. Reyndar munu eldri börn oft hafa meiri áhyggjur af tali um stríð vegna þess að þau hafa tilhneigingu til að skilja hætturnar betur en yngri börn.

3. Viðurkenndu tilfinningar barnsins

Mikilvægt er að barnið finni fyrir stuðningi og að virðing sé borin fyrir áhyggjum þess. Þegar börn fá tækifæri til að eiga opið og heiðarlegt samtal um hluti sem koma þeim í uppnám geta þau fundið fyrir létti og öryggi.

4. Fullvissaðu barnið um að fullorðnir um allan heim vinni hörðum höndum að því að leysa átökin

Minntu barnið á að það er ekki á ábyrgð þess að leysa átökin. Börn eiga ekki að hafa samviskubit yfir því að geta leikið sér, hitt vini sína og gera það sem gleður þau. Sýndu rósemd þegar þú ræðir um þetta málefni því barnið skynjar og afritar tilfinningar þínar - ef þú sýnir óöryggi yfir ástandinu eru líkur á að barnið verði líka óöruggt.

5. Gefðu barninu tækifæri til að leggja sitt af mörkum

Styðjið við barnið ef það vill hjálpa. Börnum getur fundist þau vera hluti af lausninni ef þau hafa tækifæri til að hjálpa þeim sem lenda í stríði. Hægt er hvetja barnið til að setja af stað fjáröflun, senda bréf til stjórnvalda eða teikna myndir og semja texta sem kallar á frið.

Barnaheill – Save the Children hafa starfað í Úkraínu frá árinu 2014 og veitt börnum og fjölskyldum þeirra nauðsynlega mannúðaraðstoð. Þetta felur í sér að auka aðgengi að menntun, dreifa vetrarpökkum og hreinlætispökkum og veita fjölskyldum fjárhagslega aðstoð. Sérfræðingar okkar styðja börn við að sigrast á andlegum og sálrænum áhrifum reynslu þeirra af átökum og ofbeldi og auka getu þeirra til að takast á við streitu í daglegu lífi.

Barnaheill - Save the Children standa fyrir neyðarsöfnun fyrir börn og fjölskyldur þeirra í Úkraínu. Hægt er að leggja söfnuninni lið hér.

NEYÐARSÖFNUN BARNAHEILLA

.