Hvernig eflum við innra varnarkerfi barna gegn kynferðisofbeldi

Kynferðisofbeldi gagnvart börnum er til í mörgum myndum. Gerandi ofbeldisins tryggir sér oft þögn barnsins með hótunum til dæmis um að eitthvað slæmt gerist ef barnið segir frá eða lofar því gjöfum/peningum ef það segir ekki frá. Segja má að öflugasta forvörnin gegn þessari vá felist í góðu sjálfstrausti og sterkri sjálfsmynd. Þetta er grunnurinn að innra varnarkerfi barnsins sjálfs.

Börn sem eru í góðum tengslum við forráðamenn sína, búa við góðar uppeldislegar aðstæður þar sem þau upplifa verðleika, ást og umhyggju, eiga mikla möguleika á að byggja upp og þroska með sér öflugt persónulegt varnarkerfi.
Börn þurfa kennslu og leiðbeiningu um alls konar hegðun, líka kynferðislega, til að mynda hvenær og hvernig snerting er viðeigandi eða óviðeigandi og hvar mörkin um snertingu ligja í samskiptum. Með því að veita barni fræðslu sem hæfir aldri þess og þroska verður það hæfara en ella til að lesa umhverfið og greina hvaða hegðun er innan eðlilegra marka og hvaða hegðun ekki.

Einstaklingur sem er í góðum tengslum við eigiðtilfinningalíf hefur oft gott innsæi. Hann finnur ef til vill til ónotakenndar, óöryggis eða ótta í aðstæðum sem eru ótryggar, án þess að átta sig endilega á hvers vegna. Það hjálpar barni við hættulegar aðstæður að heyra í eigin innri viðvörunarbjöllum.
Að sama skapi má leiða að því líkum að börn sem hafa verið vanrækt og ekki fengið nauðsynlegan útbúnað til að vega og meta hættur í umhverfinu hafi veikar varnir. Þetta á einnig við um börn sem glíma við fötlun eða sérþarfir sem veikja félags- og/eða vitsmunalegt varnarkerfi þeirra.
Enda þótt samfélagið í heild sinni taki höndum saman gegn kynferðisglæpum gagnvart börnum má segja að útilokað sé að girða með öllu fyrir afbrot af þessu tagi. Einstaklingar sem haldnir eru barnagirnd fyrirfinnast án efa í flestum, ef ekki öllum samfélagshópum. Börn þurfa þess vegna að vita hvað skal gera ef þau sæta kynferðisofbeldi eða vita um einhvern sem hefur orðið fyrir slíku ofbeldi.
Staðir eða aðstæður þar sem hægt er að beita börn kynferðisofbeldi eru fjölmargir. Einstaklingar sem haldnir eru barnagirnd kasta gjarnan út netum sínum á internetinu, en leita einnig á staði þar sem mörg börn koma saman, svo sem skemmtigarða eða sundlaugar.
fræðsla

Fræðsla um internetið þarf að vera hluti af grunnfræðslu til að styrkja persónulegt varnarkerfi barnsins. Netið er eins og stórborg með öllu því jákvæða og neikvæða sem hún hefur upp á að bjóða. Brýna þarf fyrir börnum um leið og net notkun hefst að taka ekki öllu trúanlegu sem sagt er á netinu og að eiga ekki stefnumót við einhvern sem þau kynnast á netinu. Leggja þarf áherslu á að þau setji ekki myndir inn á netið sem gætu gefið röng skilaboð. Mikilvægt er að ítreka við börn að eiga aldrei slæm leyndarmál með neinum og að leyndarmál sem láta manni líða illa séu slæm leyndarmál.

Foreldrar ættu í samræmi við aldur og þroska barna sinna að fylgjast með og fá eftir atvikum leyfi til að skoða reglulega tölvupósta sem berast börnum þeirra, skoða hverjir eru vinir barnanna á Facebook og fara reglulega yfir ferilskrá tölvunnar.
Sjálfsagt er að nota varnarsíur sem bjóðast, en hafa skal í huga að þær veita ekki fullkomið öryggi. Það er einnig sterkur leikur að ræða við foreldra vinanna. Hópur foreldra sem hefur samræmt reglur um tölvunotkun er aðhald fyrir börnin sem um ræðir. Styrkur slíkrar samræmingar leiðir oft til þess að börnin verði sáttari við reglurnar en væru þær ólíkar milli heimila vinanna.

Grunnfræðsla um líkamann
Enginn þekkir barnið betur en foreldrar og forráðamenn þess. Forráðamenn eru þess vegna hentugustu fræðararnir þegar kemur að því að fræða barnið um líkamann. Forráðamenn geta sérsniðið fræðsluna að þroska barns, fundið hentugustu tímasetninguna til að veita hana, endurtekið hana samhliða auknum vits munaþroska
barnsins og fylgt henni eftir. Forráðamenn þurfa að útskýra hvað átt er við með hugtakinu „einkastaðir“ (hugtak sem gjarnan er notað í fræðslu af þessum toga) og að einkastaðir eru staðir eða svæði líkamans sem barnið ræður eitt yfir. Foreldrar sem ekki treysta sér til að eiga þessa umræðu við börn sín eða vita ekki hvernig best er að gera það geta ávallt leitað til fagfólks skóla eða grasrótarsamtaka eða fengið upplýsingar á www.barnaheill.is/verndumborn.
Segi barn frá misnotkun eða komi fram vísbendingar um slíkt á barnið ávallt að njóta vafans. Taka skal mark á orðum og upplifunum þess, hlusta á hvað barnið er að segja, spyrja það án þess að yfirheyra það beinlínis. Mikilvægt er að segja jafnframt við barnið að það sé rétt að segja frá og að ofbeldið sé ekki á ábyrgð þess. Það er aldrei börnum að kenna ef einhver brýtur regluna um einkastaði. Mál af þessu tagi skal ávallt tilkynna til lögreglu og/eða barnaverndar.

Umræða um kynferðislega misnotkun á börn um og mikilvægi þess að við höldum vöku okkar er áríðandi. Gæta þarf þó þess að hún sé á öllum tímum ábyrg og upplýsandi. Hætt er við að óábyrg umræða hræði börn og veki hjá þeim óþarfa áhyggjur og kvíða. Fylgjast þarf með líðan þeirra í kjölfar frétta af þessu tagi og þurfa forráðamenn að vera tilbúnir að útskýra og svara spurningum í samræmi við aldur og þroska hvers og eins og nota slík tæki færi til að styrkja innra varnarkerfi þeirra gegn kynferðisofbeldi.
 
Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og formaður Barnaheilla - Save the Children á Íslandi.