Hvetja íslensk stjórnvöld til að styðja valfrjálsa bókun um kæruferli vegna Barnasáttmálans

Barnaheill á Íslandi og Mannréttindaskrifstofa Íslands hvetja íslensk stjórnvöld til að styðja valfrjálsa bókun um kæruferli (e. communication procedure) vegna Barnasáttmálans. Við hvetjum jafnframt íslensk stjórnvöld til að senda fulltrúa sinn í Genf á fund starfshóps Mannréttindaráðsins 14. - 18.desember 2009 til að styðja þetta mál.

Barnaheill á Íslandi og Mannréttindaskrifstofa Íslands hvetja íslensk stjórnvöld til að styðja valfrjálsa bókun um kæruferli (e. communication procedure) vegna Barnasáttmálans. Við hvetjum jafnframt íslensk stjórnvöld til að senda fulltrúa sinn í Genf á fund starfshóps Mannréttindaráðsins 14. - 18.desember 2009 til að styðja þetta mál.

Í ár eru 20 ár frá því samningurinn um réttindi barnsins var samþykktur af Sameinuðu þjóðunum. Á þessum tímamótum er vert að fagna því sem hefur áunnist en jafnframt að efla baráttuna fyrir réttindum barna á Íslandi og um allan heim. Alþjóðasamtök Barnaheilla, Save the Children hafa frá upphafi barist ötullega fyrir réttindum barna og stofnandi samtakanna, Eglantyne Jebb, skrifaði Yfirlýsingu um réttindi barnsins (e. Declaration of the Right of the Child) sem var undanfari Barnasáttmálans.

 

Stuðningur við gerð og gildistöku valfrjálsrar bókunar (e. optional protocol) um kæruferli vegna brota gegn ákvæðum Barnasáttmálans fer sívaxandi á alþjóðavetttvangi.

 

Alþjóðasamtök Barnaheilla, Save the Children og 450 önnur frjáls félagasamtök, mannréttindasamtök og stofnanir hvetja til þess að kæruferlið verði að veruleika.

 

Í mars 2009 samþykkti Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna ályktun um að stofnaður yrði starfshópur til að semja drög að ferlinu. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktunina í júní sl. Fyrsti fundur starfshópsins fer fram í Genf 14.-18. desember 2009 en þar verður tekin ákvörðun um framhaldið.

 

Börn heimsins hafa beðið í 20 ár eftir því að Barnasáttmálinn verði efldur með þessari mikilvægu viðbót. Barnaheill á Íslandi og Mannréttindaskrifstofa Íslands telja að valfrjálsa bókunin um kæruferli muni styrkja Barnasáttmálann og stuðla að því að þau réttindi sem hann kveður á um komist raunverulega í framkvæmd.