Íslandsteppi til styrktar Barnaheillum ? Save the Children á Íslandi

slandsteppi_mynd_Dagmar_Munsch_minniLaugardaginn 6. ágúst nk. verður boðið upp einstakt bútasaumsveggteppi á fjölskyldu- og bæjarhátíðinni „Sumar á Selfossi“. Uppboðið fer fram í Bæjargarðinum á Selfossi kl. 16. Teppið hefur hlotið nafnið Íslandsteppi og er hannað og saumað af sunnlensku handverkskonunni, Jónínu Huldu Gunnlaugsdóttur. Allur ágóði af sölu teppisins rennur óskiptur til Barnaheilla – Save the Children á Íslandi.

slandsteppi_mynd_Dagmar_Munsch_minni

Laugardaginn 6. ágúst nk. verður boðið upp einstakt bútasaumsveggteppi á fjölskyldu- og bæjarhátíðinni „Sumar á Selfossi“. Uppboðið fer fram í Bæjargarðinum á Selfossi kl. 16. Teppið hefur hlotið nafnið Íslandsteppi og er hannað og saumað af sunnlensku handverkskonunni, Jónínu Huldu Gunnlaugsdóttur. Allur ágóði af sölu teppisins rennur óskiptur til Barnaheilla – Save the Children á Íslandi.

Þetta einstaka teppi var var þrjú ár í smíðum með hléum og sýnir, eins og nafnið ber með sér, mynd af Íslandi. Í því eru 3008 tveggja tommu bútar og 160 mismunandi litir af efni en teppið er 215x270 sm. Íslandsteppið myndi sóma sér afar vel í stóru rými með góðu veggplássi, eins og til dæmis í anddyri hjá fyrirtæki eða stofnunum. Einnig myndi það nýtast vel til kynningar á land og þjóð og geta allir verið stoltir af því að sýna gestum og gangandi slíka prýði. Teppið hefur verið til sýnis á þrem stöðum og vakið mikla athygli og umtal og er nú til sýnis  í Bókasafni Árborgar við Austurveg.

Eins og áður sagði verður teppið selt hæstbjóðanda á uppboði á bæjarhátíðinni „Sumar á Selfossi“ 6. ágúst nk. og mun allur ágóði renna óskiptur til styrktar verkefnum Barnaheilla – Save the Children á Íslandi. Samtökin þakka Jónínu Huldu þennan mikla velvilja í garð þeirra.

Barnaheill – Save the Children eru leiðandi frjáls félagasamtök sem vinna að mannréttindum barna um allan heim. Sýn samtakanna er heimur þar sem réttur sérhvers barns til lífs, verndar, þroska og þátttöku er virtur. Markmið Barnaheilla – Save the Children er  að vekja heiminn til vitundar um stöðu barna og ná fram tafarlausum og ævarandi breytingum í lífi þeirra.