Jólagjöf til allra barna

Höfundur er Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri hjá Barnaheillum
Höfundur er Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri hjá Barnaheillum

Nú í svartasta skammdeginu þegar jólin lýsa upp tilveru okkar er samhygðin gjarnan sú tilfinning sem við finnum helst í brjósti okkar. Við viljum dvelja með ástvinum okkar og hugsum til genginna kynslóða. Mörg okkar eiga minningar um einfaldara jólahald þar sem gjafir voru helst eitthvað sem vantaði, ekki síst einhver flík. Sum okkar eiga ekkert sérstaklega góðar minningar um jólahátíð bernsku sinnar.

Minningarnar eru fremur litaðar erfiðleikum, jafnvel ofbeldi og miklum skorti. Því miður er það svo að enn eru börn sem búa við þessar aðstæður. Tæp 13 prósent barna á Íslandi eiga á hættu að búa við fátækt og félagslega einangrun samkvæmt nýútgefinni skýrslu Barnaheilla. Þessi börn eiga ekki sömu tækifæri í lífinu og önnur börn. Slíkt er mannréttindabrot.

Betri vegferð

Á undanförnum áratugum hefur neysla okkar aukist mikið og loftslag okkar og jörð ber þess merki. Meira en þrjátíu ár eru frá því að fram kom yfirlýsing um að við ættum að skila jörðinni til komandi kynslóða í síst verra ástandi en við tókum við henni. Þetta nefnist sjálfbær þróun. Þar er lögð áhersla á jafnrétti milli kynslóða og jafnrétti milli heimshluta.

Forgangsverkefnið átti þó að vera að uppræta fátækt. Í raun er hægt að segja að heil kynslóð ráðamanna heimsins hafi vanrækt þessar skyldur sínar. Þeir sem undanfarið hafa tekið við keflinu gefa okkur þó von um að það takist að vinda ofan af gjörðum fortíðar og breyta hegðun til framtíðar. Við getum öll verið með á þeirri vegferð. Við getum með gjörðum okkar stuðlað að því að börnin okkar taki við betra búi en við.

Fátækt er ekki náttúrulögmál. Hvert barn þarf einhvern sem hefur trú á því, hvetur, styður og sýnir því ást og umhyggju. Ef barn sem býr við erfiðar aðstæður hefur slíkan stuðning eykur það möguleika þess til að brjótast til betra lífs. Við getum öll verið sá áhrifavaldur í lífi barna. Fátækt er ekki náttúrulögmál. Upprætum fátækt á Íslandi. Gefum öllum börnum gleðilega jólahátíð.

Grein birtist í jólablaði Fréttablaðsins, þann 24. desember 2021.