Kalla eftir nýju samkomulagi fyrir sýrlenska flóttamenn

Barnaheill – Save the Children og sex önnur mannúðarsamtök birtu í dag skýrslu sem kallar eftir aðgerðum alþjóðasamfélagsins til að leysa vanda flóttamanna.

Sýrlensk börn við flóttamannabúðir í Jórdaníu. Mynd Sam Tarling/OxfamAlþjóðasamfélagið verður að sýna hugrekki og sameinast um nýtt samkomulag sem leysir vanda sýrlenskra flóttamanna sé því á annað borð alvara með að ná tökum á stærstu mannúðarkrísu frá seinni heimsstyrjöldinni. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem Barnaheill – Save the Children og sex önnur mannúðarsamtök birtu í dag.

Engin lausn er í sjónmáli varðandi átökin í Sýrlandi og horfur á að flóttamenn geti snúið öruggir til síns heima á næstu misserum eru nánast engar. Nýtt samkomulag þarf að tryggja stuðning við nágrannalönd Sýrlands, þangað sem meira en fjórar milljónir sýrlenskra flóttamanna hafa þegar flúið. Binda þarf enda á bann við því að Sýrlendingar vinni og í sumum tilfellum búi löglega í þessum löndum. Á sama tíma þarf að vernda og styrkja rétt þeirra til að óska eftir hæli.

„Margir flóttamenn neyðast til að búa við algjöra lagalega óvissu og ótal takmarkanir sem skapa óöryggi og ótta um handtöku, farbann og brottvísun,” segir Jan Egeland, framkvæmdastjóri Norska flóttamannaráðsins.

„Lífsskilyrði þeirra fara stöðugt versnandi og þeir þurfa að laga sig að ömurlegum aðstæðum til að takast á við hörmulegan raunveruleika. Þeir eiga tvo möguleika; að snúa aftur á átakasvæðið sem þeir flúðu, eða að hætta lífi sínu til að komast til Evrópu. Við þurfum að hjálpa dvalarlöndunum að geta gefið flóttamönnum tækifæri til að búa mannsæmandi lífi í þessum löndun og hjálpa samfélögunum þar sem þeir búa á jákvæðan hátt.”

Mannúðarsamtökin segja að ný og skapandi langtímaleið sé þörf. Með hjálp alþjóðlegra stuðningsaðila ættu stjórnvöld í nágrannalöndum Sýrlands að móta stefnu sem leyfi flóttamönnum að fóta sig betur og geta séð sér farborða fjárhagslega án þess að hætta á handtöku. Þannig leggi flóttamenn einnig sitt af mörkum efnahagslega til landanna sem þeir búi í.

Eins og staðan er nú eru margir flóttamenn þvingaðir út í skuldir og örbirgð. Þeir hafa ekki efni á leigu eða mat og þurfa að reiða sig á minnkandi hjálp. Um 70% flóttamanna í Líbanon vantar nauðsynleg skjöl ti