Kastljós hlýtur Viðurkenningu Barnaheilla

Kastljós, hlaut í dag Viðurkenningu Barnaheilla – Save the Children á Íslandi árið 2013 fyrir sérstakt framlag í þágu barna og mannréttinda þeirra. Viðurkenningin er veitt fyrir vandaða umfjöllun um kynferðisofbeldi gagnvart börnum þar sem varpað er ljósi á afleiðingar ofbeldisins á börn. Með vandaðri umfjöllun sinni vakti Kastljós upp umræðu í samfélaginu. Vitundarvakning um málefnið er ein öflugasta forvörn sem völ er á.

HópmyndKastljós, hlaut í dag Viðurkenningu Barnaheilla – Save the Children á Íslandi árið 2013 fyrir sérstakt framlag í þágu barna og mannréttinda þeirra. Viðurkenningin er veitt fyrir vandaða umfjöllun um kynferðisofbeldi gagnvart börnum þar sem varpað er ljósi á afleiðingar ofbeldisins á börn. Með umfjöllun sinni lagði Kastljósið lóð á vogarskálar baráttunnar gegn kynferðisglæpum gagnvart börnum og vakti upp umræðu í samfélaginu. Vönduð umræða skilar árangri með margs konar hætti og getur haft áhrif til lengri tíma. Vitundarvakning um málefnið er ein öflugasta forvörn sem völ er á.


Barnaheill veita árlega viðurkenningu fyrir sérstakt framlag í þágu barna og mannréttinda þeirra í tengslum við afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þann 20. nóvember. Viðurkenningin er afhent til að vekja athygli á Barnasáttmálanum og mikilvægi þess að íslenskt samfélag standi vörð um mannréttindi barna. Barnasáttmálinn er leiðarljós í öllu starfi Barnaheilla – Save the Children á Íslandi.


Afhending viðurkenningarinnar fór fram í Þjóðmenningahúsinu. Kolbrún Baldursdóttir, formaður Barnaheilla – Save the Children á Íslandi og Gunnar Hansson, leikari, fluttu ávarp auk þess sem Sigmar Guðmundsson, ritstjóri Kastljóssins ávarpaði samkomuna.

 

Þeir Óskar Magnússon, gítarnemi í Nýja Tónlistarskólanum og Finnur Marteinn Sigurðsson, gítarnemi í Tónlistarskóla Garðabæjar voru með tónlistaratriði. Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri samtakanna stýrði athöfninni.

 

Barnaheill - Save the Children á Íslandi eru hluti af alþjóðasamtökunum Save the Children International. Alþjóðasamtökin vinna að réttindum og velferð barna í 120 löndum og hafa Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Hérlendis leggja samtökin áherslu á að standa vörð um réttindi barna, á þátttöku barna og á vernd barna gegn ofbeldi. Erlendis styðja Barnaheill - Save the Children á Íslandi menntun barna og mannúðarstarf vegna hamfara.
Heimasíða samtakanna á Íslandi er www.barnaheill.is.