#kommentsens kynningarherferð

Alþjóðlegi netöryggisdagurinn er haldinn í dag, 8. febrúar en þá taka ríki heims sig saman um að hvetja til öruggrar og jákvæðrar netnotkunar barna og fyrir börn. Af því tilefni hafa Barnaheill hrint af stað kynningarherferðinni  #Kommentsens.

#Kommentsens er herferð Ábendingalínu Barnaheilla og SAFT sem hvetur til góðra samskipta á milli barna og unglinga á samfélagsmiðlum og hvetur börn til að nota #kommentsens áður en þau segja eitthvað leiðinlegt við aðra á netinu. #Kommentsens kennir krökkum líka leiðir til að forðast að fá neikvæð og óviðeigandi komment (athugasemdir) á færslurnar sínar á Tik Tok og öðrum samfélagsmiðlum.

Herferðin er unnin í samvinnu við unglinga og ungmenni sem skrifuðu handrit fyrir myndböndin og tóku þátt í hönnun og gerð herferðarinnar og gáfu henni nafnið #Kommentsens, en þeim þykir það vera ,,Common sense” að hugsa sig um áður en þau skrifa athugasemdir á samfélagsmiðlum og þannig varð nafnið til.

Til Ábendingalínunnar er hægt að tilkynna um ólöglegt og óviðeigandi efni sem varðar börn á netinu, svo sem hatursorðræðu, ofbeldi og einelti, kynferðisofbeldi, tælingu, áreitni og fleira. Ábendingalína Barnaheilla sem rekin er í samstarfi við Ríkislögreglustjóra, er hluti af SAFT verkefninu, ásamt Heimili og skóla og Rauða krossinum sem rekur 1717, hjálparsímann. Ábendingalínan er þátttakandi í alþjóðlegu neti ábendingalína um allan heim í gegnum regnhlífasamtökin INHOPE.