Kópavogsbær forgangsraðar í þágu barna

 Í byrjun árs 2015 fengu leikskólastjórar í Kópavogi kynningu á Vináttu og sýndu þeir verkefninu strax mikinn áhuga. Það varð til þess að menntasvið Kópavogsbæjar ákvað, með styrk frá forvarnarstjóði bæjarins, að bjóða öllum leik­ skólum í sveitarfélaginu að taka verkefnið upp. 

„Vinátta vakti strax áhuga hjá Kópavogsbæ þegar það var tekið í tilraunavinnu haustið 2014.Við urðum vör við að verkefnið hafði mjög jákvæð áhrif á allt starf leikskólannna sem tóku þátt í verkefninu og það skilaði sér einnig út í samfélagið,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi.
„Með öflugri vinnu við að fyrirbyggja einelti og þátttöku í Vináttuverkefninu er Kópavogsbær að sýna í verki vilja sinn til að forgangsraða í þágu barna og jákvæðra samskipta milli þeirra. Megináherslan er á að koma í veg fyrir einelti, að byggja upp góðan skólabrag, að eiga góð samskipti, hafa jákvæð viðhorf til allra í hópnum og einblína á styrkleika hvers og eins,“ segir Ármann og bætir við að leikskólar hafi stundum verið útundan í umræðunni um einelti. Erfið samskipt barna á leikskólastigi hafi ekki fengið nægilega athygli; „Á leikskólanum byrja hins vegar þau samskipti sem við byggjum á allt lífið. Með því að vinna að heilbrigðum samskiptum í leikskólanum getum við haft mest áhrif.“


„Við fögnum því innilega að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í þessu verkefni með Barnaheillum.
Okkur finnst Kópavogur vera að taka ákveðna forystu í baráttunni gegn einelti og við erum afar stolt af því.“