Kynning á viðbótarskýrslu frjálsra félagasamtaka um stöðu réttinda barna á Íslandi til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna

Fulltrúar þeirra níu frjálsu félagasamtaka sem koma að skýrslunni. Frá vinstri Birna Þórarinsdóttir …
Fulltrúar þeirra níu frjálsu félagasamtaka sem koma að skýrslunni. Frá vinstri Birna Þórarinsdóttir framkvæmdastjóri Unicef, Kristín Hjálmarsdóttir framkvæmdastjóri Rauða krossins, Margrét Steinarsdóttir framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, Árni Múli Jónasson framkvæmdastjóri Þroskahjálpar, Erna Reynisdóttir framkvæmdastjóri Barnaheilla, Viktor Berg Guðmundsson framkvæmdastjóri Samfés, Auður Inga Þorsteinsdóttir framkvæmdastjóri UMFÍ og fremst er Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður Öryrkjabandalagsins.
Á myndina vantar Hrefnu Sigurjónsdóttur framkvæmdastjóra Heimilis og Skóla.

Skýrslan var kynnt í dag 30. september kl. 10 í Kaffi Flóru í Laugardal.

Áhersluatriði skýrslunnar eru:

  • Stjórnvöld hafa ekki sinnt skyldu sinni við innleiðingu Barnasáttmála SÞ
  • Fjölga þarf tækifærum fyrir börn og ungmenni til að taka þátt
  • Stjórnvöld þurfa að tryggja betur aðstoð við börn af erlendum uppruna, fötluð börn og börn sem búa við fátækt.

Frá því að Ísland skilaði síðustu skýrslum sínum til Barnaréttarnefndarinnar hefur margt þróast í rétta átt en þó er margt sem bæta þarf svo börn á Íslandi geti notið allra þeirra réttinda sem getið er um í Barnasáttmálanum.

Meðal þeirra athugasemda sem koma fram í viðbótarskýrslu félagasamtakanna níu er að:

  • Stjórnvöld hafi ekki sinnt skyldu sinni við innleiðingu Barnasáttmálans. Lagt er til að stjórnvöld geri m.a. landsáætlun um innleiðingu sáttmálans og gefi út leiðbeiningar til þeirra sem taka ákvarðanir í málefnum barna um hvernig eigi að meta hvað sé barni fyrir bestu.
  • Auka þarf tækifæri barna og ungmenna til þátttöku í málefnum sem þau varðar. Stjórnvöld þurfa að sýna frumkvæði í að bjóða börnum að tjá skoðanir sínar í öllum aðstæðum og bera ábyrgð á að fræða almenning um tjáningarrétt barna óháð aldri. Sérstaklega skal tryggja aðstoð við börn af erlendum uppruna, fötluð börn, börn sem búa við fátækt og aðra hópa barna sem mæta hindrunum. Ennfremur er afar mikilvægt að íslenska ríkið undirriti og fullgildi þriðju valfrjálsu bókun Barnasáttmálans um kvörtunarleiðir til Barnaréttarnefndarinnar, og opni þannig aðgang fyrir börn til að kvarta undan meðferð stjórnvalda á málum sínum, án mismununar.
  • Nauðsynlegt er að setja á fót sjálfstæða mannréttindastofnun á Íslandi en hingað til hefur Mannréttindaskrifstofa Íslands, sem rekin er af frjálsum félagasamtökum, sinnt störfum mannréttindastofnunar
  • Eftirlit og samræming á starfsemi barnaverndarnefnda sé ábótavant og skuli eflt til muna. Þá skuli barnaverndarnefndir verða skipaðar fagfólki og látið verði af pólitískum skipunum. Úttekt verði gerð á barnavernd fylgdarlausra barna sem sækja um alþjóðlega vernd.
  • Tryggja þarf að fötluð börn njóti tækifæra og mannréttinda sem þeim ber samkvæmt Barnasáttmálanum og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, til jafns við önnur börn. Vöntun er á áreiðanlegri tölfræði um stöðu þeirra til að hægt sé að grípa til ráðstafana til að tryggja réttindi þeirra og verja fyrir mismunun og ofbeldi. Stórauka þarf tækifæri til náms, vinnu, menningar og tómstunda fyrir fötluð börn og ungmenni og jafnframt að tryggja rétt þeirra til hjálpartækja, m.a. fyrir börn sem búa á tveimur heimilum til að þau hafi raunveruleg tækifæri til að taka virkan þátt í samfélaginu, eins og önnur börn.

 

Nálgast má íslenska útgáfu skýrslunnar hér og enska útgáfu hér.

Streymi frá kynningu skýrslunnar má nálgast hér.