Landssöfnun Barnaheilla hefst í dag

Í dag, 24. ágúst, hefst Landssöfnun Barnaheilla og stendur yfir til 6. september. Söfnunin í ár ber heitið ,,Hjálpumst að við að vernda börn” og rennur allur ágóði af söfnuninni í verkefniðVerndarar barna sem er forvarnaverkefni samtakanna gegn kynferðisofbeldi á börnum. Þetta er í fyrsta sinn sem söfnunin er á vegum Barnaheilla, en samtökin Blátt áfram sameinuðust Barnaheillum árið 2019. Þetta er ellefta árið sem söfnunin fer fram.

Barnaheill vilja með söfnuninni, sem felur í sér sölu á ljósum, vekja athygli á kynferðisofbeldi á börnum. Nú þegar Covid-19 er ríkjandi í okkar samfélagi eru sterkar vísbendingar um að fjölmörg börn muni glíma við slæmar afleiðingar faraldursins. Fjöldi tilkynninga til barnaverndar vegna heimilisofbeldis og annars ofbeldis hefur marktækt aukist undanfarna mánuði en í maí 2020 bárust tilkynningar vegna alls 999 barna en á tímabilinu janúar 2019 - febrúar 2020 var mest tilkynnt vegna 874 barna og minnst 622 barna á einum mánuði.

Sýnt hefur verið fram á að börn sem verða fyrir ofbeldi upplifa mikla vanlíðan, eru líklegri til að eiga við geðræn vandamál að stríða, geta haft lélega sjálfsmynd og verið með sjálfsvígshugsanir. Á fullorðinsárum koma fram ýmis líkamleg, geðræn og félagsleg vandamál.

Með fræðslu til fullorðinna um fyrirbyggjandi leiðir og rétt viðbrögð við einkennum um vanlíðan barna, getum við náð snemma til þessara barna og stuðlað að betri lífsgæðum þeirra.

Með kaupum á ljósinu hjálpumst við að við að vernda börn.