Líkamlegar refsingar eru víða enn við lýði

Greinahöfundur er Guðrún Helga Jóhannsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri og leiðtogi erlendra verkefna…
Greinahöfundur er Guðrún Helga Jóhannsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri og leiðtogi erlendra verkefna hjá Barnaheillum

Íslandi hefur orðið mikil vitundarvakning og aukin þekking á réttindum barna og jákvæðum uppeldisaðferðum til að styðja og vernda börn. Notkun jákvæðra uppeldisaðferða er komin styttra á veg víða og í Síerra Leóne vinna Barnaheill – Save the Children á Íslandi með foreldrum og kennurum í þjálfun jákvæðra uppeldisaðferða.

Í Síerra Leóne er líkamlegum refsingum beitt. Þar má nefna að láta börn labba á hnjánum í heitum sandi, borða heitan leir, slá með belti og neita börnum um mat. Börn eru látin bera þunga hluti, eins og til dæmis stóra vatnsdalla sem eru alltof þungir miðað við stærð þeirra. Ef börnin missa vatnið er þeim refsað með barsmíðum. Börnin þurfa að ferðast langan veg á morgnana til að komast í skóla, sum yfir hættulegar ár. Ef börnin mæta of seint í skólann mæta þau barsmíðum, fá ekki að koma inn í stofuna til að taka þátt í kennslustund dagsins og eru send aftur heim til sín.

Heima er líkamlegum refsingum einnig beitt og börnin eru látin vinna langa vinnudaga. Ef þau sinna ekki vinnunni eða gera hana illa eru þau barin og þeim neitað um mat.

Aissatou, 9 ára, vaknar klukkan 5 á hverjum morgni. Hún byrjar daginn á því að sópa heimilið, þrífa herbergi pabba síns, sækja vatn og þvo upp frá kvöldinu áður. Þegar hún hefur lokið við að þvo upp fer hún í skólann. Hún þarf að ganga langa leið í skólann með tóman maga en skólinn byrjar klukkan 8.30. Þegar hún kemur til baka úr skólanum les hún og eldar svo kvöldmat með mömmu sinni. Eftir matinn sinnir hún heimanáminu með aðstoð lítils vasaljóss sem hún fékk í gjöf frá Barnaheillum. Vasaljósið er keyrt með sólarorku.

Mikilvægt er að foreldrar og þeir sem vinna með börnum fái fræðslu og þjálfun í að beita jákvæðri nálgun í uppeldi og að hætta líkamlegum refsingum. Líkamlegar refsingar eru brot á réttindum barna og hjálpa ekki til við að byggja upp sterka einstaklinga.

 

Frétt birtist á frettablaðið.is þann 31. ágúst 2022