Linnulausar árásir á almenna borgara halda áfram

Þorpið Kashuga, staðsett í norður hluta Kivu héraðs í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó varð fyrir hrottalegri árás í byrjun júní, sem kostaði sjö manns lífið. Fjölskyldur höfðu safnast þar saman eftir að hafa flúið átök við her landsins (FARDC). Árásir á þetta svæði hafa kostað 185 menn, konur og börn lífið á síðustu tólf mánuðum. Héruðin Kivu og Ituri hafa sérstaklega orðið fyrir barðinu á miskunnarlausum árásum hersins sem sérstaklega hafa verið skipulagðar á svæði flóttafólks. Héraðið er mikið átakasvæði og fjöldi fylgdarlausra barna er þar á vergangi.

Barnaheill - Save the Children á Íslandi hófu mannúðarverkefni í landinu með stuðningi utanríkisráðuneytisins haustið 2020. Áhersla verkefnisins hefur verið að að vernda börn gegn ofbeldi, misnotkun, útskúfun og vanrækslu, auk þess að vernda börn fyrir því að vera neydd til að ganga til liðs við vígahópa og styðja við þau börn sem hafa þegar verið neydd til þess.

Eftir eina árásina í febrúar fyrr á þessu ári sagði 28 ára maður frá upplifun sinni:

,,Þeir rifu upp tjaldið og drápu dóttur mína. Ég er örmagna og hef enga orku til að finna mat fyrir börnin mín. Til alþjóðasamfélagsins biðla ég um að fá aðstoð við að hefja nýtt líf, til að eiga fyrir fötum og nauðsynjavörum. Ég bið um frið á ný til að geta byrjað að vinna aftur".

Barnaheill sem og önnur alþjóðleg mannúðarsamtök á svæðinu fordæma með öllu árásir á almenna borgara, skóla, spítala og aðra mikilvæga innviði enda er ofbeldi á almenna borgara með öllu bannað samkvæmt alþjóða mannúðarsamningum. Árásir á skóla og heilbrigðisstofnanir eru alvarleg brot á réttindum barna á átakasvæðum.

Biðlað er til stjórnvalda að tryggja öryggi íbúa sinna sem og að semja um frið. Þess er krafist að hafin verði rannsókn á þeim stríðsglæpum sem hafa viðgengist og draga þá sem standa að þessum mannréttindabrotum til ábyrgðar. Einnig kalla samtökin eftir því að samstarfsaðilar Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó styðji við núgildandi svæðisbundnar aðgerðaáætlanir sem og þær friðarviðræður sem Afríkusambandið hefur leitt, til að binda enda á þessi hræðilegu átök.

Barnaheill styðja við sex barnvæn svæði í Suður-Kivu, svæðin eru opin öllum börnum í samfélaginu þar sem þau geta lært og leikið sér í góðu og öruggu umhverfi. Börnin koma úr mismunandi aðstæðum en sum búa með foreldrum sínum í nágrenninu á meðan önnur eru fylgdarlaus og búa í kirkjum eða flóttamannabúðum. Fjölbreytt verkefni fara fram svæðunum þar sem börn hafa tækifæri til að taka virkan þátt í starfseminni og foreldrar að fá fræðslu.

Barnaheill - Save the Children á Íslandi hófu verkefni í Suður-Kivu haustið 2020. Barnaheill í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó sér um framkvæmd verkefnisins.