Lítið þokast í að uppræta barnafátækt í Evrópu

Frá árinu 2013 hafa Barnaheill – Save the Children á Íslandi tekið þátt í vinnu Evrópuhóps Save the Children um barnafátækt í álfunni. Árið 2014 kom út skýrsla á vegum hópsins; Child poverty and social exclusion ­ a matt­er of childrens rights, þar sem fram kom að um 28% barna í Evrópu eiga á hættu að búa við fátækt eða félagslega einangrun. Síðla árs 2016 kom svo út önnur skýrsla, Educational and Child poverty in Europe -­ Leaving no child behind, eða tengsl barnafátæktar og skorts á tækifærum og menntun.
Lítið hefur þokast í þá átt að uppræta fátækt í álfunni undanfarin ár. Enn eiga 28% barna í Evrópu á hættu að búa við fátækt og félagslega einangrun. Þetta eru rúmlega 25 milljónir barna í Evrópu.Væru þessi börn ein þjóð, þá væru þau sjöunda fjölmennasta þjóð Evrópusambandsins. Ekkert Evrópuland er laust við barnafátækt og lítið hefur þokast í þá átt að uppræta fátækt í álfunni.
ORSAKIR FÁTÆKTAR
Meginorsök fátæktar er ójöfnuður sem hefur aukist í Evrópu. Um 10% heimila í Evrópu eiga 50% eigna.Velmegun er í boði fyrir sífellt færri. Færri fjölskyldur hafa möguleika á að veita börnum sínum gott líf. Afleiðingar efnahagskreppunnar á laun og kjör eru meðal annars þær að þrátt fyrir að foreldrar hafi atvinnu er það ekki trygging fyrir lífi án fátæktar. Stöðugur niðurskurður varð á framlögum til menntunar frá upphafi kreppu í öllum Evrópulöndum. Þau börn sem eru hve verst stödd verða enn frekar útundan hvað varðar menntun og tækifæri, heilsu og lífsfyllingu. Þessi börn eru líklegri til að hætta snemma í námi og verða því með minni færni og hæfni – og eiga frekar á hættu að vera atvinnulaus eða vera í láglaunastörfum sem fullorðnir einstaklingar. Skortur á menntun er einn helsti áhættuþáttur fátæktar og brottfall er einn mælikvarðanna.
Börn sem búa við fátækt eru líklegri að búa áfram við fátækt sem fullorðnir einstaklingar. Börnin bera ekki ábyrgð á stöðu sinni og það er ábyrgð samfélagsins að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri.
ÁSKORUN TIL STJÓRNVALDA
Í skýrslunni skora Save the Children á stjórnvöld hvers lands að bregðast við og gera áætlanir til að uppræta barnafátækt.
BARNAHEILL SKORA Á ÍS­ LENSK STJÓRNVÖLD AÐ:
• Lengja fæðingarorlof og tryggja að öll börn eigi öruggt skjól í þroskandi námsumhverfi á vegum sveitarfélaga eftir að fæðingarorlofi lýkur
Rúmlega 40% barna á Íslandi á aldrinum 0-3 ára eru skráð í leikskóla eða aðra umönnun utan heimilis en um 98% barna frá þriggja ára aldri. Samkvæmt áætlunum í Evrópu er lögð áhersla á að öll börn hafi aðgang að þroskandi námsumhverfi frá unga aldri, þar sem árin frá fæðingu að grunnskóla skipta sköpum fyrir þroska barnsins.
• Tryggja gjaldfrjálsa gæðamenntun fyrir öll börn
Barnaheill hafa ítrekað sent stjórnvöldum áskoranir þar að lútandi.
• Minnka brottfall úr skólum með raunhæfum aðgerðum sem virka Samkvæmt skýrslunni er brottfall á Íslandi 18,8%, sem er langt fyrir ofan meðatal í Evrópu sem er 11%. Brottfall á Norðurlöndum er; Danmörk: 8%, Svíþjóð: 7%, Finnland: 9%, Noregur: 11%
• Styrkja mennta­ og velferðarkerfið ásamt beinum inngripum fyrir þau börn sem eiga við einhvers konar erfiðleika að etja
Mennta- og velferðarkerfið eru helstu tæki jöfnunar og félagslegs réttlætis fyrir börn.
• Tryggja aðgang allra barna að tómstundum, listum og skemmt­unum
• Tryggja að öll börn sem fæðast á Íslandi geti vænst þess að hafa tækifæri til menntunar, heilsu og lífsfyllingar og ekkert barn muni búa við fátækt
• Hafa fjárfestingu í börnum sem leiðarljós í fjárlagagerð á öllum stjórnsýslustigum, þar sem fjár­ festingin mun skila sér til alls sam­félagsins í nútíð og framtíð
• Að líta ekki á fjármagn í þjónustu við börn sem útgjöld
Eitt barn sem býr við fátækt og félagslega einangrun er einu barni of mikið. Eitt barn sem ekki fær tækifæri til að þroska hæfileika sína og eiga líf sem það telur gott er einu barni of mikið.
Íslenskt samfélag getur ekki skorast undan því að horfast í augu við barnafátækt. Þjóðarsátt þarf um að útrýma fátækt og tryggja að öll börn á Íslandi geti lifað með reisn, fái að þroskast og nýta hæfileika sína. 
 
Margrét Júlía Rafnsdóttir
Greinin birtist í Blaði Barnaheilla 2017.