Börn í dag upplifa mun alvarlegri loftslagsáhrif en fyrri kynslóðir

Alþjóðasamtök Barnaheilla – Save the Children stóðu fyrir rannsókn í samvinnu við alþjóðateymi loftslagsrannsókna í Virje Háskólanum í Brussel þar sem skoðuð voru áhrif loftslagsbreytinga á börn. Niðurstöður rannsókna voru birtar í dag, 27. september, í skýrslunni Born into the Climate Crisis: Why we must act now to secure children’s rights. Varpa niðurstöðurnar ljósi á að börn fædd í dag eru töluvert útsettari fyrir öfgakenndum loftslagsbreytingum í samanburði við fólk fætt árið 1960. Í skýrslunni lýsa börn frá 11 löndum með eigin orðum hvernig loftlagsbreytingar hafa nú þegar haft áhrif á líf þeirra. Þar er enn fremur lýst skelfilegum áhrifum loftslagsbreytinga á framtíð barna ef ekki er gripið til aðgerða strax. Auk þess má finna ráðleggingar um hvernig berjast megi gegn loftslagsbreytingum.

Niðurstöður skýrslunnar sýna að nauðsynlegt er að grípa til enn frekari loftslagsaðgerða, en án þeirra munu börn fædd í dag upplifa að meðaltali sjö sinnum fleiri hitabylgjur á ævi sinni heldur en afar þeirra og ömmur. Þau munu að meðaltali upplifa 2,6 sinnum fleiri þurrka, 2,8 sinnum fleiri flóð, næstum þrisvar sinnum fleiri uppskerubresti og tvisvar sinnum fleiri skógarelda.

Í sumum löndum eru áhrif loftslagsbreytinga öfgakenndari en annars staðar. Í Afghanistan munu börn til að mynda upplifa átján sinnum fleiri hitabylgjur heldur en eldri kynslóðir og börn í Malí gætu þurft að horfa upp á tíu sinnum fleiri uppskerubresti. Önnur börn gætu jafnvel upplifað margar hörmungar á sama tíma eða með stuttu millibili sem eykur áhrifin til muna.

Loftslagsbreytingar hafa mest áhrif á börn sem búa í fátækari löndum eða samfélögum, þar sem þau eru nú þegar í mun meiri hættu vegna vatnstengdra hörmunga, hungurs og vannæringar. Einnig eru heimili þeirra oftar viðkæmari fyrir flóðum, stormum og öðrum ofsaveðrum. Loftlagsbreytingar ógna áratuga baráttu gegn hungri og glæpum og eykur hættuna á að milljónir barna muni festast í langvarandi fátækt.

Nýlegar hitabylgjur í Bandaríkjunum og Kanada, skógareldar í Ástralíu, flóð í Evrópu og Kína, og hinir útbreiddu þurrkar sem valdið hafa fæðuskorti víðsvegar, eins og til dæmis í Afghanistan, Madagascar, og Sómalíu, hafa sýnt okkur að enginn er óhultur fyrir áhrifum loftslagsbreytinga. Án aðgerða munum við færa börnunum okkar skelfilega framtíð.

Alþjóðasamtök Barnaheilla leggja áherslu á að það sé ennþá tími til að snúa þessari dökku framtíðarsýn við. Ef hlýnun jarðar yrði takmörkuð við 1,5 gráður myndi þessi aukna hætta á hitabylgjum falla um 45%, þurrkar myndu minnka um 39%, flóð um 38%, uppskerubrestir um 28% og skógareldar um 10%.

Samtökin benda á að aðgerðir gegn loftslagsbreytingum eru ekki bara siðferðisleg skylda okkar, heldur er það líka lagaleg skylda stjórnvalda að hámarka hagsæld barna í hverju samfélagi.

Þrátt fyrir þetta eru börn að jafnaði ekki höfð með í ákvörðunartöku varðandi loftslagsmál, jafnvel þó að loftslagsbreytingar muni hafa mest áhrif á líf barna á komandi áratugum. Börn verða að fá að spila lykilhlutverk í ákvörðunum varðandi loftslagsbreytingar sérstaklega þær sem hafa áhrif á misrétti og mismunun. Stjórnvöld þurfa því ekki bara að hlusta á börn heldur líka að bregðast við ráðleggingum þeirra.

Til að lágmarka áhrif loftslagsbreytinga á líf milljónir barna kalla alþjóðasamtök Barnaheilla eftir því að lágmarka hlýnun jarðar við 1,5 gráður. Það er hægt með því að hraða ferlinu við að færa okkur úr jarðefnaeldsneyti, auka fjárlög til loftslagsmála og hlusta á raddir barna, kröfur þeirra og réttindi þegar kemur að loftslagsskuldbindingum. Einnig er mikilvægt að ríki komi upp viðbragðsáætlunum fyrir börn og fjölskyldur þeirra sem eru berskjölduð fyrir loftslagsbreytingum.