Lumar þú á hjóli í geymslunni?

Gefðu barni hjól og komdu hjólinu aftur í umferð – er yfirskrift hjólasöfnunar Barnaheilla sem hófst í dag. Söfnuninni var ýtt úr vör í Sorpu á Sævarhöfða á hádegi þegar Herdís Ágústa Linnet, formaður ungmennaráðs Barnaheilla, afhenti Ernu Reynsdóttur, framkvæmdastjóra Barnaheilla, fyrsta hjólið sem hún eignaðist. Auk hennar voru ungmenni frá ungmennaráðum Save the Children frá 5 löndum viðstödd.

IMG_4994Gefðu barni hjól og komdu hjólinu aftur í umferð – er yfirskrift hjólasöfnunar Barnaheilla sem hófst í dag. Söfnuninni var ýtt úr vör í Sorpu á Sævarhöfða á hádegi þegar Herdís Ágústa Linnet, formaður ungmennaráðs Barnaheilla, afhenti Ernu Reynsdóttur, framkvæmdastjóra Barnaheilla, fyrsta hjólið sem hún eignaðist. Auk hennar voru ungmenni frá ungmennaráðum Save the Children frá 5 löndum viðstödd.

Hjólasöfnunin er unnin í samstarfi við Æskuna barnahreyfingu IOGT og Íslenska fjallahjólaklúbbinn. Þetta er í fjórða sinn sem Barnaheill standa fyrir söfnun á notuðum reiðhjólum fyrir börn og unglinga. Söfnunin stendur til 30. apríl 2015 og verður hjólum safnað á endurvinnslustöðvum Hringrásar og Sorpu á höfuðborgarsvæðinu og á pósthúsum á landsbyggðinni.

Hjólin eru ætluð börnum sem ekki hafa kost á því að kaupa sér reiðhjól. Hægt er að sækja um hjól hjá félagsþjónustu sveitarfélaganna. Hjólin verða afhent nýjum eigendum að loknum viðgerðum í júní.

Sjálfboðaliðar gera hjólin upp undir styrkri stjórn sérfræðinga í reiðhjólaviðgerðum á vegum Íslenska fjallahjólaklúbbsins og Æskunnar, barnahreyfingar IOGT. Á facebook-síðu hjólasöfnunarinnar getur fólk fylgst með og skráð sig til þátttöku í viðgerðum.

Frá upphafi hjólasöfnunarinnar árið 2012 hafa hundruð barna notið góðs af því að fá hjól úr söfnuninni. 

Hjólunum verður safnað á eftirfarandi stöðum:

  • Hringrás - Klettagörðum í Reykjavík
  • Sorpu – Dalvegi í Kópavogi, Breiðhellu í Hafnarfirði, Sævarhöfða, Ánanaustum og Jafnaseli í Reykjavík og Blíðubakka í Mosfellsbæ

Á myndunum má sjá þegar Erna tók við hjólinu af Herdísi Ágústu, og svo Þóru Jónsdóttur, verkefnastjóra hjólasöfnunarinnar, með hóp ungmennanna úr ungmennaráðum Barnaheilla - Save the Children frá fimm löndum.

IMG_4993