Málefni vegalausra barna í Evrópu

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur samþykkt aðgerðaráætlun til ársins 2014 í málefnum vegalausra barna í Evrópu. Evrópusamtök Save the Children, sem Barnaheill – Save the Children á Íslandi á aðild að, fagna þessari nýju áætlun en í henni er tekið tillit til athugasemda samtakanna um öryggi og velferð þessara barna.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur samþykkt aðgerðaráætlun til ársins 2014 í málefnum vegalausra barna í Evrópu. Evrópusamtök Save the Children, sem Barnaheill – Save the Children á Íslandi á aðild að, fagna þessari nýju áætlun en í henni er tekið tillit til athugasemda samtakanna um öryggi og velferð þessara barna.

Engar tölulegar upplýsingar eru til um fjölda þessara vegalausu barna en til þeirra teljast börn sem eru á vergangi í Evrópu án umsjár foreldra. Einungis eru til tölur yfir þau börn  sem óskað hafa eftir hælisvist. Bakgrunnur vegalausra barna er mismunandi en flest eru á aldrinum 15 til 17 ára, frá löndum á borð við Afganhistan, Írak og ýmsum Afríkuríkjum. Þó margvíslegar ástæður séu fyrir því að börnin yfirgefa heimaland sitt, eiga þau það öll sammerkt að hafa búið við slæmar aðstæður, s.s. stríðsástand, fátækt, náttúruhamfarir, mismunun eða ofsóknir. Sum barnanna hafa verið send á brott af fjölskyldum sínum í von um betra líf, menntun eða heilbrigðisþjónustu. Önnur eru að leita uppi fjölskyldu sína eða eru fórnarlömb mansals.

Undanfarna mánuði hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins unnið að  aðgerðaráætlun í málefnum vegalausra barna í Evrópu. Evrópusamtök Save the Children hafa fylgst náið með þeirri vinnu og gert athugasemdir á öllum stigum hennar. Samtökin fagna því sérstaklega að í áætluninni sem nú hefur verið samþykkt er tekið tillit til athugasemda þeirra. Samtökin telja brýnt að líta fyrst og fremst til þess hvað sé barninu fyrir bestu við ákvarðanir er það varðar. Aðrar aðstæður barnsins eru aukaatriði, þ.e. hvort það sé flóttabarn, hælisleitandi eða hafi verið þátttakandi í ólöglegu athæfi sem fórnarlamb mansals.

Evrópusamtök Save the Children hafa lagt ríka áherslu á það að börnin seu ekki send aftur til síns heimalands, nema að það sé tryggt að við þeim taki öruggt umhverfi og velferð þeirra sé tryggð. Öll lönd Evrópu hafa staðfest barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og ber því að tryggja öllum börnum þau réttindi sem kveðið er á um þar.

Markmið Evrópusamtaka Save the Children er m.a. að hafa áhrif á löggjöf og stefnu Evrópusambandsins og Evrópuráðsins í málefnum er varða réttindi og velferð barna og að réttindi barna séu tryggð, óháð uppruna þeirra eða aðstæðum. Evrópusamtökin hafa sérstaklega beitt sér fyrir verndun barna gegn ofbeldi, fyrir málefnum vegalausra barna og hælisleitenda og barna sem eru fórnarlömb mansals.