Málþing gegn einelti

Besta leiðin til að fyrirbyggja einelti í barnahópum er að fagna fjölbreytileikanum auk þess að efla liðsheild, samkennd og sjálfsmynd barna. Það eru niðurstöður umræðna sem fram fóru á málþingi gegn einelti sem Barnaheill – Save the Children á Ísland stóðu fyrir í gær, fimmtudag 3. nóvember um hvernig hægt er að fyrirbyggja og takast á við einelti. Farsælustu leiðirnar til að takast á við einelti eru samkvæmt niðurstöðunum samvinna allra í samfélaginu, að fullorðnir séu góðar fyrirmyndir í samskiptum og snemmtæk inngrip séu til staðar í þeim málum sem koma upp.
Í ljósi þeirrar umræðu sem hefur verið í samfélaginu um einelti og afleiðingar þess töldu Barnaheill brýnt að efla umræðuna um einelti, safna hugmyndum og leita lausna um hvernig hægt sé að takast á við þennan alvarlega málaflokk með það að leiðarljósi að koma í veg fyrir að börn og ungmenni upplifi þá hræðilegu líðan sem einelti fylgir.
Forseti Íslands, hr. Guðni Th Jóhannesson, ávarpaði þingið og tók undir mikilvægi þess að hafa þetta málþing og kalla að borðinu sérfræðinga í málaflokknum því samfélagið sem heild þarf að vinna saman að lausn á þessum vanda. Anna Magnea Hreinsdóttir aðjúnkt við menntavísindasvið Háskóla Íslands fjallaði um rannsókn sem hún hefur staðið að til að kanna hvaða áhrif Vinátta – forvarnaverkefni Barnaheilla gegn einelti hefur á skólabrag og góð samskipti í leik- og grunnskólum. Ingileif Friðriksdóttir framkvæmdastjóri Ketchup Creative greindi á einlægan hátt frá einelti sem hún varð fyrir í bernsku og hræðsluna við að koma út úr skápnum og Maria Jimenez Pacifico CEO Mijita ehf, CEO Inviktus samtakanna, aktivisti og fyrsta plus size fyrirsæta Kolumbíu deildi með þinggestum hvernig hún vann úr þeim sársauka sem hún upplifði vegna eineltis sem hún varð fyrir. Ársæll Arnarsson prófessor við menntavísindasvið Háskóla Íslands fjallaði um líðan gerenda í eineltismálum og Guðbjörg Oddsdóttir, deildarstjóri í Hörðuvallaskóla sagði frá þróunarverkefni sem leik- og grunnskólar í Kórahverfi í Kópavogi hafa unnið að í þeim tilgangi að notast við námsefni Vináttu og bangsann Blæ til að brúa bilið á milli skólastiganna. Þóra Björnsdóttir, verkefnastjóri og móðir fjallaði um kynþáttafordóma, flokkun og húðlit út frá sjónarhorni móður barna af blönduðum uppruna og að lokum voru þær Margrét Júlía Rafnsdóttir, Ída Björg Unnarsdóttir og Linda Hrönn Þórisdóttir frá Barnaheillum með erindi um hvernig Vinátta getur verið mikilvæg forvörn gegn einelti. 
Miklar umræður sköpuðust um hvaða leiðir eru færar til að fyrirbyggja einelti og hvernig best sé að takast á við það á sem farsælastan máta. Rík áhersla var lögð á mikilvægi þess að byggja upp góðan skólabrag og þannig menningu í barnahópum að umburðarlyndi sé ríkjandi fyrir margbreytileikanum þar sem öll börn eru metin af verðleikum út frá eigin styrkleikum. Foreldrar, kennarar og aðrir fullorðnir sem eru í lífi barna eru mikilvægar fyrirmyndir í samskiptum þar sem börnin spegla sig í viðbrögðum þeirra og framkomu. Þá var sérstaklega rætt um þær áskoranir sem notkun samfélagsmiðla felur í sér þegar kemur að samskiptum og sjálfsmynd.