Menntunarátak í Níger til að draga úr fólksfjölgun og barnahjónaböndum

Bakhira 29 ára ásamt börnunum hennar fimm. 
Hún giftist ung og eignaðist fyrsta barnið sitt 15 ára.…
Bakhira 29 ára ásamt börnunum hennar fimm.
Hún giftist ung og eignaðist fyrsta barnið sitt 15 ára. Í dag á hún þrjá stráka og tvær stúlkur

Menntunarátak stendur nú yfir í Níger til að auka menntunarmöguleika fyrir stúlkur í þeim tilgangi að hægja á hröðustu mannfjöldaaukningu heims sem er þar í landi. Í Níger er einnig síhækkandi atvinnuleysi ungs fólks og hæsta tíðni barnagiftinga heims.

Fjölskyldur í Níger eiga að meðaltali sjö börn. Mikil mannfjöldaaukning hefur átt sér stað undanfarna áratugi, frá 3,5 milljónum árið 1960 til um 25 milljóna í dag. Miðgildi aldurs í landinu er nú 14,5 ár og tveir af hverjum fimm Nígerbúum eða 40,8% lifa undir fátæktarmörkum. Flestir þeirra eða 95% búa á dreifbýlum svæðum þar sem fátæktartíðnin er mun hærri, sérstaklega á Dosso, Zinder og Maradi svæðunum.

Árleg fólksfjölgun í Níger er 3,7%, sem eykur álagið á þetta landlukta land þar sem loftlagsbreytingar hafa dregið úr regni en fjölgað flóðum og þar af leiðandi gert fjölskyldum mun erfiðara fyrir að lifa á landbúnaði. Fyrir sex mánuðum síðan urðu flóð þar í landi með þeim afleiðingum að u.þ.b. 8.600 heimili eyðilögðust, 330 hektarar af uppskeru skemmdust og 620 kýr fórust. Þar að auki kemur daglega nýtt flóttafólk til landsins, flýjandi undan átökum í nágrannalöndum.

Þetta viðbótarálag hefur leitt til hærri tíðni barnahjónabanda fyrir stúlkur, þar sem fátækar fjölskyldur sjá brúðargjöld sem nauðsynlega búbót. Þetta kemur hins vegar í veg fyrir að stúlkurnar fái að fara í skóla og áhætta fylgir barnsfæðingum fyrir aldur fram og eykur líkur á andlegum heilsuvandamálum.

Samkvæmt nýjustu tölum eru 76% stúlkna í Níger giftar fyrir 18 ára aldur og 28% fyrir 15 ára. Barnaréttindahópar hafa sagt frá framförum í þessum málum undanfarinn áratug, en hafa nú áhyggjur að aukin átök, loftlagsbreytingar og fólk á vergangi sé að gera ástandið verra á ný.

Barnaheill – Save the Children vinna með yfirvöldum í Níger að því að mennta stúlkur um fjölskylduskipulagningu (e. family planning) og reka svokallaða eiginmannaskóla. Þar fá stúlkur m.a. fræðslu um getnaðarvarnir og tíðarhringinn. Ráðamenn höfðu lagt fram áætlanir um að ná notkun á nútímalegum getnaðarvörnum upp í 50% fyrir árið 2020 en tölfræðin sýnir hins vegar að markmiðið var ef til vill of metnaðarfullt og hefur ekki náðst, þrátt fyrir að hægt sé að sjá breytingu í hegðun á sumum svæðum.

Ef mannfjöldaaukning helst eins og hún er, má búast við að 600.000 ný börn hefji skólagöngu á hverju ári, sem þýðir að opna þyrfti 12.000 nýja skóla árlega. Frekar hefur dregið úr fjölda skóla en 890 skólum var lokað af öryggisástæðum í Níger í ágúst 2022. Samkvæmt skýrslu frá UNICEF leiddi þetta til þess að 78.000 börn gátu ekki lengur sótt skóla, þar af 38.000 stúlkur.Í nýlegri skýrslu Barnaheilla – Save the Children kemur fram að Níger er eitt af þeim löndum þar sem mikil hætta er á að menntakerfið hrynji.

Abdou Ousmane Kango, 60 ára, starfar í eiginmannaskóla Barnaheilla – Save the Children í Zinder héraði. „Við erum að sjá heilmiklar breytingar í hegðun fólks. Konur koma sífellt oftar til okkar á heilsugæsluna og biðja um pilluna. Þær eru farnar að læra um kosti getnaðarvarna og við sjáum sumar þeirra vera á pillunni í tvö til þrjú ár án þess að verða óléttar inn á milli.“

Á Bandé heilsugæslunni sem Barnaheill – Save the Children styðja hefur fjöldi kvenna sem notar getnaðarvarnir áttfaldast á einu ári (frá 144 í janúar 2022 til 1.235 í desember 2022) þökk sé vitundarvakningu í þessum málum. Þar gegnir eiginmannaskólinn mikilvægu hlutverki. Auk þess að hafa áhrif á íbúaþróun hefur þessi kennsla gert ungum mæðrum, sem flestar giftust í kringum 15 ára aldur, kleift að sinna sjálfum sér og fjölskyldum sínum betur og afla fé fyrir heimilið.

Inger Ashing, framkvæmdastjóri alþjóðasamtaka Barnaheilla – Save the Children fór nýlega til Níger.

„Ég hef verið í Zinder undanfarna daga, þar sem stúlkur hafa sagt hversu heitt þær þrá að halda skólagöngu sinni áfram. Þær vilja möguleikann á betra lífi og vilja ekki lengur sjá stúlkur festast í hjónaböndum, oft með mun eldri mönnum, sem þær hafa enga leið til að losna úr.
Níger er talið hafa heimsins hæstu tíðni barnahjónabanda. Við fáum sífellt að heyra hvernig þetta getur bundið enda á framtíðarmöguleika ungra, bjartsýnna stúlkna sem dreymir um eitthvað meira.
Við vitum að fátækt og há tíðni barnahjónabanda haldast oft í hendur. Við vitum líka að Níger er að takast á við ýmsar áskoranir, til að mynda matarskort, flóttafólk frá nágrannalöndum og afleiðingar loftlagsbreytinga. Samt getum við gert meira með að kenna stúlkum aðrar leiðir til þess stýra lífi sínu og hvetja karlmenn til þess að styðja þær í því.“

Barnaheill – Save the Children reka menntunarúrræði víða um Níger til þess að tryggja að börn, sérstaklega stúlkur, hafi aðgang að góðri menntun, líka á átakasvæðum. Árið 2022 náðu Barnaheill – Save the Children til yfir 2.500.000 manns í Níger, þar af meira en 1.680.000 barna.