Mikil réttarbót fyrir þolendur kynferðisbrota

Frumvarp til laga um breytingu á kynferðisbrotakafla hegningarlaga var samþykkt á Alþingi síðastliðinn laugardag. Þessi nýju lög eru mikil réttarbót fyrir þolendur kynferðisbrota. Ein helsta breytingin er sú að fyrningarfrestur á alvarlegustu kynferðisbrotum gegn börnum var afnuminn. 

Frumvarp til laga um breytingu á kynferðisbrotakafla hegningarlaga var samþykkt á Alþingi síðastliðinn laugardag. Þessi nýju lög eru mikil réttarbót fyrir þolendur kynferðisbrota. Ein helsta breytingin er sú að fyrningarfrestur á alvarlegustu kynferðisbrotum gegn börnum var afnuminn. Með þessari breytingu gekk Alþingi lengra en upprunalegu frumvarpið gerði ráð fyrir en samkomulag um þessa breytingu náðist í meðförum allsherjarnefndar Alþingis. Þessi lagabreyting verður vonandi til þess að það takist að koma lögum yfir kynferðisafbrotamenn jafnvel þótt langt sé liðið frá brotum þeirra.

Sem dæmi um aðrar breytingar sem samþykkt frumvarpsins hefur í för með sér:

- fyrningarfrestur vegna annarra kynferðisbrota en þeirra alvarlegustu gagnvart börnum telst frá þeim degi er brotaþoli nær 18 ára aldri
- kynferðislegur lágmarksaldur var færður úr 14 árum í 15 ár
- skilgreining á nauðgun var rýmkuð verulega og bætt var í lögin ýmsum atriðum sem eiga að koma til refsiþyngingar í nauðgunarmálum, þar á meðal ungur aldur þolandans.
- refsingar fyrir kynferðisbrot gegn börnum voru þyngdar og refsiramminn verður sá sami og fyrir nauðgun
- almennt ákvæði um kynferðislega áreitni var lögfest
- vændi til framfærslu var gert refsilaust

Lögin hafa þegar öðlast gildi.

Breytt löggjöf í þessa átt hefur lengi verið baráttumál hjá Barnaheillum og taka samtökin öllum þessum breytingum fagnandi.