Mikil úrkoma hefur leitt til flóða í Ein Al-Dair flóttamannabúðunum í Norðvestur-Sýrlandi

Miklar rigningar valda flóðum í flóttamannabúðum.
Miklar rigningar valda flóðum í flóttamannabúðum.

Barnaheill – Save the Children vara við að meira en 230.000 börn, sem hafa neyðst til að flýja heimili sín vegna átaka árið 2019, standi frammi fyrir enn öðrum hörmungunum vegna flóða og kulda í Norður-Sýrlandi.

Íbúar um 500 tjalda í flóttamannabúðum í norðvestur-Sýrlandi hafa nú þegar neyðst til að yfirgefa tjöld sín.

Sanad*, 9, býr í einum flóttamannabúðanna með fjölskyldu sinni. Hann segir að þau hafi ekkert til að vernda þau fyrir kulda og flóðum:

„Þegar það fór að rigna, fórum við út fyrir tjaldið sem við gistum í. Það var mikil drulla, við gátum ekki gengið. Við höfðum engan hita og engin teppi. Við höfðum ekkert.“

Ástandið í yfirtroðnum flóttamannabúðum í Norður-Sýrlandi er hörmulegt. Sjö barna móðirin Hamida*, 40, sagði Barnaheillum – Save the Children að hún hafi neyðst til að flytjast 15 sinnum síðasta vetur vegna rigninga:

„Síðasti vetur var sá versti. Ég neyddist til að flytja fimmtán sinnum innan flóttamannabúðanna síðasta vetur, búðirnar voru á floti, tjöldin gegnumblaut af vatni og jörðin mýri.

Ég þurfti að færa tjaldið á milli staða; þar var ég í nokkra daga eða viku þar til það fór að rigna aftur og flóðin eyðilögðu tjaldið mitt. Börnin mín áttu ekki almennileg föt, við vorum ekki með hitara og höfðum ekki einu sinni eldivið til að kveikja eld til að hlýja okkur!

Við hræðumst mjög það sem koma skal, við erum hrædd við rigninguna, mörg börn létu lífið síðasta vetur vegna kulda og flóða.“

Sonia Khush, starfsmaður Barnaheilla - Save the Children í Sýrlandi sagði:

„Enn á ný eru þúsundir barna í Norður Sýrlandi í hættu vegna þess að þau búa við óviðunandi aðstæður í vetur. Við vitum frá fyrri vetrum hvernig börn þjást ef hitastigið lækkar – kornabörn og ung börn sem neyðast til að yfirgefa heimili sín, og fjölskyldan á í erfiðleikum með að lifa af, eru mjög viðkvæm fyrir versnandi veðri.“

Barnaheill – Save the Children eru á vettvangi í Sýrlandi og aðstoða börn og fjölskyldur þeirra með dreifingu á hreinlætisvörum, matarkörfum og öðrum nauðsynjum, með það að markmiði að bæta lífsskilyrði barna og fjölskyldna þeirra sem eru á flótta.

Flóð í flóttamannabúðum

*Nöfnum hefur verið breytt