Mikilvæg framlög í söfnun til hjálpar börnum í Japan

Japan_minni_framlogBarnaheill – Save the Children á Íslandi hafa í vikunni móttekið mikilvæg framlög í söfnun fyrir börn í Japan. Starfsfólk Eldingar færði samtökunum allan aðgangseyri í árlegri Friðarsúluferð sem farin var á vorjafndægrum 20. mars sl. Þá afhenti veitingastaðurinn suZuzhii í Kringlunni samtökunum alla innkomu staðarins eftir skatta í einn dag óskipta.

Japan_minni_framlog
Petrína Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla - Save the Children á Íslandi tekur við framlagi suZuzhii frá Ástu Sveinsdóttur og Sigurði Karli Guðgeirssyni, eigendum veitingastaðarins.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa í vikunni móttekið mikilvæg framlög í söfnun fyrir börn í Japan. Starfsfólk Eldingar færði samtökunum allan aðgangseyri í árlegri Friðarsúluferð sem farin var á vorjafndægrum 20. mars sl. Þá afhenti veitingastaðurinn suZuzhii í Kringlunni samtökunum alla innkomu staðarins eftir skatta í einn dag óskipta.

Ásta Sveinsdóttir og Sigurður Karl Guðgeirsson, eigendur veitingastaðarins suZuzhiis í Kringlunni, afhentu Petrínu Ásgeirsdóttur, framkvæmdastjóra Barnaheilla – Save the Children á Íslandi, 595.000 krónur sem var óskipt innkoma staðarins eftir skatta á sérstökum styrktardegi í síðustu viku. Allir birgjar veitingastaðarins gáfu hráefni og drykki og eigendur og starfsmenn staðarins gáfu vinnu sína.

Að kvöldi 20. mars sl. var kveikt á Friðarsúlunni „Imagine Peace Tower“ í Viðey og lýsti hún upp kvöldhimininn fram að miðnætti í eina viku. Þá viku voru reglulegar kvöldsiglingar út í eyna. Ferðin 20. mars var tileinkuð fórnarlömbum hamfaranna í Japan en listamaðurinn og hugmyndasmiður Friðarúlunnar, Yoko Ono, á rætur sínar að rekja til Japans. Sérstakt tilboð var í ferðina það kvöld og rann aðgangseyrir í ferjuna, 90.000 krónur óskiptur til söfnunar Barnaheilla – Save the Children á Íslandi fyrir börnin í Japan. Að auki jafnaði ferðaþjónustufyrirtækið Elding, sem sér um siglingar til Viðeyjar, framlagið og alls nam söfnunarféð því 180.000 krónur.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi þakka þessum fyrirtækjum fyrir rausnarlegt framlag til söfnunar til hjálpar börnum í Japan. Framundan er mikið uppbyggingarstarf og brýnt að hlúa sérstaklega að börnum svo þau geti tekist á við þessa erfiðu lífsreynslu. Söfnunin stendur enn yfir og hægt er að hringja í söfnunarsíma Barnaheilla –Save the Children á Íslandi, 904 1900 og 904 2900, til að leggja málefninu lið eða leggja inn frjáls framlög á 0327-26-001989, kt. 521089-1059.