Námstefna um Vináttu tókst afar vel

F.v. Kolbrún Baldursdóttir, formaður Barnaheilla – Save the Children á Íslandi, Guðni Th. Jóhannesso…
F.v. Kolbrún Baldursdóttir, formaður Barnaheilla – Save the Children á Íslandi, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla og Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri Vináttu hjá Barnaheillum. Ljósm. Linda Hrönn Þórisdóttir

Námstefna um Vináttu – forvarnaverkefni Barnaheilla gegn einelti, sem haldin var í gær, gekk í alla staði mjög vel. Um 150 þátttakendur hlýddu á áhugaverð erindi og kynningar og tóku þátt í umræðum. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flutti ávarp en hann er verndari Vináttu. „Við erum á réttri leið en erum enn ekki kom­in á leiðar­enda,“ sagði forsetinn meðal annars auk þess sem hann taldi mikilvægt að veita þeim sem yrðu fyrir einelti von. Þá varaði hann við nýjum ógnum sem falist gætu í stafrænu einelti í netheimum.

Formaður Barnaheilla – Save the Children á Íslandi, Kolbrún Baldursdóttir, setti námstefnuna. Hún sagði meðal annars frá sögu samtakanna en þau verða 100 ára á næsta ári.

Aðalfyrirlesari á námstefnunni var dr. Dorte Marie Søndergaard prófessor í félagssálfræði við háskólann í Árósum. Hún fjallaði um rannsóknir sínar á einelti og eðli þess en niðurstöður þeirra sýna að einelti er félags-, samskipta- og menningarlegt fyrirbæri eða mein en ekki einstaklingsbundið. Þess vegna þarf forvarnastarf í skólum að byggjast á aðferðum þar sem lögð er áhersla á að styrkja samskiptahæfni og félags- og tilfinningaþroska barna og að hafa áhrif á menningu og skólabrag í stað þess að einblína á einstaklinga sem gerendur og þolendur.

Þá greindu þær Christina Stær Mygind frá Mary fonden og Lene Lykkegaard frá Red barnet – Save the Children í Danmörku frá reynslu og þróun Vináttu í Danmörku þar sem efnið er þróað. Þar kallast það Fri for mobberi. En dönsku samtökin og Mary fonden eru samstarfsaðilar Barnaheilla – Save the Children á Íslandi í Vináttuverkefninu.

Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri Vináttu hjá Barnaheillum sagði frá þróun og útbreiðslu efnisins hér á landi sem gengið hefur afar vel. Ríflega 100 leikskólar eða um 40% nota efnið og það er almenn ánægja með það . Þá kynnti Katrín Johnson verkefnastjóri hjá Menntavísindastofnun HÍ niðurstöður rannsókna á Vináttu í sex leikskólum þar sem efnið var tilraunakennt veturinn 2014–2015. Þar kom meðal annars fram að börn sem unnu með efnið lærðu að leika sér betur saman og voru færari í að takast á við stríðni.

Kennarar úr fjórum skólum greindu frá reynslu af Vináttu og sýndu fjölbreytt dæmi um hvernig verkefnið er samþætt skólastarfinu. Þetta voru þær Kristín Gísladóttir frá leikskólanum Uglukletti í Borgarnesi, Bergljót Jóhannsdóttir, leikskólanum Jörva í Reykjavík, Guðmundína Kolbeinsdóttir og Þórunn A. Ólafsdóttir, Smáraskóla í Kópavogi og Hrund Malín Þorgeirsdóttir frá Grunnskóla Borgarfjarðar Hvanneyri.

Guðjón Davíð Karlsson leikari, sem margir þekkja undir nafninu Gói, sagði áhrifaríka sögu um eigin reynslu af einelti.

Þessum frábæra degi lauk svo með því að Jón Jónsson tónlistarmaður og stjórnarmaður í Barnaheillum flutti nokkur lög.