Nauðsynlegt að auka sálfélagslegan stuðning við Palestínsk börn

Rami (7) og faðir hans Jamal (35) hlutu báðir sprengjuáverka á Gaza.
Rami (7) og faðir hans Jamal (35) hlutu báðir sprengjuáverka á Gaza.

Barnaheill – Save the Children kalla eftir aukningu á geðheilbrigðisþjónustu og sálfélagslegum stuðningi við Palestínsk börn – sem flúið hafa stríðið á Gaza.

Ef við horfum til þeirra sem leitað hafa skjóls í Egyptalandi síðastliðna sjö mánuði – þá eru það 60.000 Palestínumenn og þar af stór hluti börn.

Undanfarna þrjá mánuði hafa alþjóðasamtök Barnaheilla - Save the Children fengið yfir 500 beiðnir frá Palestínumönnum í Egyptalandi með óskum um geðheilbrigðisþjónustu og sálfélagslegan stuðning. Tæplega 90% þessara beiðna voru fyrir börn. Foreldrar lýsa verulegum áhyggjum af líðan barna sinna. Börn þeirra séu mjög óttaslegin í hávaða, geti ekki sofið, þori ekki ein á salernið og sum hafi dregið sig alveg í hlé og sýni engin merki um tilfinningar.

 Waleed*, 66 ára, frá Gaza, býr nú með eiginkonu sinni og fimm börnum þeirra í Kaíró.

Börn hans hafa misst frændsystkin og aðra ástvini í stríðinu og segir móðir þeirra að þau spyrji stanslaust hvort þau séu að fara að deyja. Waleed sagði að þrátt fyrir að hafa reynt að hjálpa börnum sínum, þá þurfi þau meiri stuðning en hann geti veitt þeim til að jafna sig:

Stríðið hefur haft mikil áhrif á geðheilsu barna minna. Á meðan þau voru á flótta upplifðu þau hættur og ógnir alls staðar. Það var mikið sprengjuregn og þau voru stanslaust hrædd. Þegar við svo komum til Egyptalands voru þau í mjög slæmu andlegu ástandi og hefðu þurft sálrænan stuðning strax.

Heba*, 28 ára, býr í íbúð í Kaíró ásamt eiginmanni sínum og þremur börnum, Rami* (7), Sana* (10) ogSamira* (12), sem öll slösuðust alvarlega í loftárás á Gaza.

Heba* segir að Rami sonur hennar, sem hlaut áverka á höfði og fótlegg, sé nú hræddur við allt:

Rami var í raun þekktur fyrir að vera alltaf hugrakkur og hann var sá sem huggaði fjölskylduna. Síðan hann slasaðist hefur hann breyst í barn sem óttast allan hávaða, myrkrið, hann getur ekki farið einn á klósettið og hann getur ekki verið einn.

Heba* segir ástandið einnig slæmt hjá dætrum sínum:

Stelpurnar eru alltaf hræddar og halda að dauðinn sé handan við hornið. Samira upplifir endalausar martraðir þar sem hún vaknar upp og heldur að við séum öll dáin.

Laila Toema, sálfræðingur og ráðgjafi Save the Children í Egyptalandi, segir börn frá Gaza hafa orðið fyrir ólýsanlegum andlegum skaða í stríðinu.

„Þau hafa orðið fyrir alvarlegum meiðslum, misst líkamshluta, fjölskyldu sína, heimilin sín og allt öryggi. Þau vita mörg hver ekki um afdrif ástvina sinna og lifa í stanslausum ótta við að þau verði næst til að deyja. Það hefur enginn lifandi manneskja styrk til að lifa við svona ástand til frambúðar.“

Hún segir börnin búa yfir mikilli þrautseigju en það sé nauðsynlegt að veita þeim sálrænan stuðning svo þau fái styrk og tækifæri til að jafna sig.

Barnaheill – Save the Children kalla eftir auknum alþjóðlegum stuðningi til að mæta þörfum Palestínskra barna á flótta – svo hægt sé að búa þeim betri framtíð.