Neyðarsöfnun vegna hörmunganna í Nepal

Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa hafið neyðarsöfnun vegna jarðskjálftans í Nepal á laugardaginn.

Þúsundir barna eru slösuð, hafa misst heimili sín og eiga í miklum erfiðleikum með að finna hreint vatn og uppfylla grundvallarþarfir sínar. Þau eru í bráðri þörf fyrir hjálp. Um 30 milljónir búa í Nepal og af þeim eru 35% börn undir 15 ára aldri.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa hafið neyðarsöfnun vegna jarðskjálftans í Nepal á laugardaginn.

Þúsundir barna eru slösuð, hafa misst heimili sín og eiga í miklum erfiðleikum með að finna hreint vatn og uppfylla grundvallarþarfir sínar. Þau eru í bráðri þörf fyrir hjálp.Um 30 milljónir búa í Nepal og af þeim eru 35% börn undir 15 ára aldri.

Stjórn Barnaheilla - Save the Children á Íslandi hefur ákveðið að verja einni milljón til neyðarstarfsins.

Hundruðir starfsmanna Save the Children starfa á 63 svæðum í Nepal. Þeir hófust strax handa við að veita börnum og fjölskyldum þeirra neyðaraðstoð eftir skjálftann á laugardaginn.  Nú er unnið að því að auka aðstoðina til að koma börnum í neyð til hjálpar, en mörg þeirra eru slösuð.

„Við höfum sérstakar áhyggjur af stöðunni í hverfum fyrir utan Katmandu dalinn,“ segir Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children á Íslandi. „Börn eru ávallt berskjölduð gegn hörmungum af þessu tagi. Mörg þeirra hafa misst foreldra sína og þessum börnum þarf að koma til hjálpar.“

Neyðarbúnaður á borð við hreinlætisvörur og segldúka eru nú þegar á svæðinu og unnið er að dreifingu þeirra. Verið er að fljúga viðbótarneyðargögnum til landsins og verður þeim dreift af starfsfólki Barnaheilla - Save the Children.

Að minnsta kosti 3.600 manns hafa látist og yfir 6.500 slasast samkvæmt nýjustu tölum neyðarmiðstöðvarinnar í Nepal. Búist er við að sú tala muni hækka þegar nánari upplýsingar berast frá afskekktum bæjum á skjálftasvæðinu.

Söfnunarsími Barnaheilla vegna hörmunganna í Nepal er 904-1900 fyrir 1.900 krónur, einnig er hægt að senda sms með textanum „Nepal“ eða leggja inn á söfnunarreikninginn 336-26-58 kt. 521089-1059.