Niðurstöður hádegisfundar Barnaheilla þ. 5. desember.

Hvernig eru fagstéttir sem vinna með börnum eða að málefnum þeirra búnar undir það í námi sínu að takast á við mál tengd kynferðislegu ofbeldi gegn börnum. Hvernig búa íslenskir háskólar nemendur sína undir slíkt?  Þessi mál voru til umræðu á fundi Barnaheilla þann 5. desember síðastliðinn og var fundurinn liður í 16 daga átaki frjálsra félagasamtaka gegn kynbundnu ofbeldi.

Hvernig eru fagstéttir sem vinna með börnum eða að málefnum þeirra búnar undir það í námi sínu að takast á við mál tengd kynferðislegu ofbeldi gegn börnum. Hvernig búa íslenskir háskólar nemendur sína undir slíkt?  Þessi mál voru til umræðu á fundi Barnaheilla þann 5. desember síðastliðinn og var fundurinn liður í 16 daga átaki frjálsra félagasamtaka gegn kynbundnu ofbeldi.

Á fundinum voru kynntar niðurstöður úttektar sem Barnaheill létu gera í sumar um menntun fagstétta um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum. Enn fremur  var fjallað um  aðkomu Evrópuhóps Barnaheilla að baráttunni gegn mansali.Um 30 manns sóttu fundinn og voru umræður góðar. Meðal þáttakenda voru fulltrúar heilsugæslustöðva, félagsþjónustu sveitarfélaga, barnaverndar, félagsmiðstöðva, frístundarheimila og leikskóla.
 
Helstu niðurstöður og það sem helst vakti athygli var eftirfarandi:

  • Ýmsar námsbrautir háskóla fjalla lítið sem ekkert um kynferðislegt ofbeldi í sínu grunnnámi, heldur einungis í framhaldsnámi eða í valáföngum. Því geta nemendur útskrifast úr því námi og farið að vinna með börnum eða að málefnumn þeirra án þess að hafa þekkingu á málefninu.

  • Lítið hefur þokast í þessum málum á undanförnum árum, þrátt fyrir að ýmsir hafi bent á mikilvægi þess að stefna sé mörkuð og kennsla aukin innan háskólanna. Þó merkja menn að í háskólasamfélaginu hafi áhugi aukist mikið og vilji til að bæta kennslu í þessum málaflokki í þeim greinum sem mennta fólk sem kemur til með að vinna með börnum.

  • Enn sem komið er  virðist það fara að mestu eftir áhuga hvers kennara hvort og hvernig er fjallað um málefnið.

  • Fagstéttir, sem vinna með börn, svo sem kennarar, eru ragar við að tilkynna ef grunur er um að barn hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi. Gera þurfi fagstéttum ljóst hve mikilvægt sé að tilkynna slíkt. Svo sé það barnaverndaryfirvalda að meta og rannsaka málin.

  • Mannekla innan ýmissa starfstétta var einnig nefnd sem ástæða þess að ekki væri unnið að málum sem skyldi.

Barnaheill telja mikilvægt að fagaðilar stilli saman strengi, stefna sé mörkuð og kennsla sé aukin, bæði innan háskólastofnananna, svo og símenntun til starfandi stétta.