Nordic co-op Camp í Stokkhólmi

Í janúar 2017 fórum við fjögur frá Ungmennaráði Barnaheilla til Stokkhólms að sækja fund á vegum norræns samstarfs ungmennaráða Save The Children á Norðurlöndunum. Þetta var annar formlegi fundurinn sem ég sótti. Ferðin reyndist hreint út sagt frábær og ótrúlegt hvað var hægt að ræða mikið og læra á þessum hittingi. Eftir að hafa kynnst öðrum þátttakendum með ýmsum nafna- og samskiptaleikjum var liði safnað saman á sal. Meginþema fundarins var að læra eitthvað af því sem hin ráðin eru að gera í sínu starfi.
Press frá Noregi byrjaði á því að kynna herferð sína „Gullbarbie“. Herferðin gengur út á það að veita fyrirtæki sem stendur fyrir því að láta ungu fólki líða illa yfir útliti sínu og atferði einskonar skammarverðlaun. Það væri virkilega áhugavert að sjá hverskonar viðbrögð herferð af þessu tagi myndi hafa hér á landi.
Fulltrúar Save the Children á Álandseyjum, héldu áhugaverða kynningu um sumarstörf sem þau bjóða uppá fyrir unga krakka sem koma úr mismunandi áttum - líkt og hjá skapandi sumarstörfum Reykjavíkurborgar sem miða að því að börn finni sér eitthvað að gera í tengslum við réttindi barna.
Ungmennaráð Red Barnet í Danmörku kynntu starf sitt með ungum krökkum sem þau kalla einskonar vinahóp. Þá eru sjálfboðaliðar stuðningsaðilar fyrir börn sem eru að ganga í gegnum erfið tímabil. Hér er einmitt mikilvægt að ráða ekki bara hvern sem er þar sem börn tengjast fólki verulega sterkum böndum og þarf manneskjan því að vera til staðar í talsverðan tíma.


Stelpur úr ungmennaráðinu í Svíþjóð höfðu nýverið stofnað ungmennahóp í sveitafélagi sínu. Þær ræddu hinar ýmsu áskoranir sem geta orðið á vegi manns þegar komið er af stað samtökum, en við í hópnum frá Íslandi gátum tekið undir margt af því sem þau sögðu.Til dæmis að takast á við litla mætingu á fundi, almenna þátttöku í viðburðum og verkefnum auk öflunar styrkja og fleirra.
Við í Ungmennaráði Barnaheilla ræddum mikilvægi þess að vera í góðum samskiptum við móðursamtök okkar. Til dæmis varðandi styrki, auglýsingar o.s.fr. Okkur fannst við skara framúr á þessu sviði en við höfðum kynnst því að samband hinna ungmennaráðanna við móðursamtök sín voru lítil eða engin.


Fundirnir eru þó ekki það eina sem gert er í ferðum sem þessum. Á kvöldin er spilað og farið í leiki þar sem allir kynnast og mynda tengsl. Því er þetta frábært framtíðartækifæri fyrir alla og ég hvet krakka hér á Íslandi til að taka þátt og vera virk í þessum frábæra hópi sem við erum að byggja upp.
Gunnar Ágústsson 
Greinin birtist í Blaði Barnaheilla 2017.