Ný bók - Vinátta í leikskólanum. Góð viðbót við námsefni Vináttu

Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa nýverið gefið út bókina Vinátta í leikskólanum. Bókin er hluti af Vináttu – forvarnaverkefni Barnheilla gegn einelti fyrir leik- grunnskóla og frístundaheimili, efni um félagsfærni og samskipti. Vinátta í leikskólanum er helst ætluð börnum frá 3- 6 ára.

Vinátta í leikskólanum fylgir Friðriki og Katrínu eftir einn dag í leikskólanum. Þeim finnst gaman í leikskólanum. Þar eiga þau marga góða vini, skemmta sér og læra eitthvað nýtt á hverjum degi. Þó getur komið fyrir að allt fari í hnút í leiknum, einhver meiði sig eða sakni mömmu og pabba. Þá er gott að geta hjálpað hvert öðru og heppilegt að Friðrik og Katrín skuli búa yfir ofurkröftum! Þau eru nefnilega ofurgóð í að sýna vináttu í verki, vera elskuleg við aðra, hughreysta og sækja hjálp þegar eitthvað bjátar á.

Vinátta byggir á ákveðinni hugmyndafræðum og gildum sem gert er ráð fyrir að fléttist inn í allt skólastarf og raunhæfum verkefnum eða námsefni. Efnið er danskt að uppruna og nefnist Fri for Mobberi á dönsku. Efnið er þýtt og staðfært og gefið út í samstarfi við Red Barnet - Save the Children og Mary Fonden í Danmörku.

Vinátta stóð fyrst öllum leikskólum á Íslandi til boða í byrjun árs 2016 og nú eru 65% leikskóla landsins með efnið og eru þar með Vináttuleikskólar. Barnaheill ætlar að færa öllum Vináttuleikskólum eintak bókarinnar Vinátta í leikskólanum að gjöf. Þar að auki er hægt að panta eintök á vefsíðu samtakanna.