Ný og endurbætt tilkynningarsíða Ábendingalínunnar opnuð

Ábendingalínan
Ábendingalínan

Í gær opnuðu Barnaheill nýja og endurbætta tilkynningarsíðu Ábendingalínunnar á vef Barnaheilla. Hún er sniðin að ólíkum aldurshópum meðal annars í þeim tilgangi að auðvelda börnum að senda tilkynningu í gegnum Ábendingalínuna. Á nýju tilkynningarsíðunni er einnig að finna fræðslu um lög og skilgreiningar á ofbeldi og öðrum atriðum sem hægt er að tilkynna í gegnum Ábendingalínuna. VR styrkti gerð nýju Ábendingalínunnar. Rán Flygenring teiknaði myndir á forsíðu.

Markmiðið með rekstri Ábendingalínunnar er að vinna gegn ofbeldi gegn börnum á netinu, meðal annars að útrýma myndefni sem sýnir kynferðisofbeldi gegn börnum og birt er á internetinu. Þá eru markmiðin einnig að vinna gegn tælingu og hatursorðræðu á netinu.

Ábendingalínan er starfrækt í samvinnu við Ríkislögreglustjóra og er aðili að SAFT-verkefninu – vakningarátaki um örugga tækninotkun barna og unglinga á Íslandi. Ábendingar fara til skoðunar og rannsóknar hjá lögrelgu sem rekur slóðir efnis, finnur hvar það er vistað og sér til þess að það sé fjarlægt.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa frá árinu 2001 tekið þátt í alþjóðlegu verkefni um vernd barna gegn kynferðislegu ofbeldi á netinu. Markmið þess er að vekja athygli almennings, lögreglu, löggjafans, netþjónustuaðila, barnaverndaryfirvalda og fleiri aðila á þætti netsins í kynferðislegu ofbeldi gegn börnum og þrýsta á stjórnvöld um að axla ábyrgð í þessum málaflokki. Kjarni verkefnisins er rekstur Ábendingalínunnar. Verkefnið hefur notið styrkja frá Evrópusambandinu. Barnaheill eru í alþjóðasamtökunum INHOPE, regnhlífarsamötkum ábendingalína. Í samtökunum eru meira en 50 ábendingalínur í 45 löndum. Þær eru í öllum heimsálfum en flestar í Evrópu. Starf INHOPE felst í að auka þekkingu, deila reynslu um málefnið og styðja við bakið á aðildarfélögum.