Nýir talsmenn barna á Alþingi

Þingmenn úr öllum flokkum gerðust talsmenn barna á Alþingi 7. mars síðastliðinn. Þeir skuldbunda sig þannig til að hafa barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi við störf sín. Fulltrúar ungmennaráða Barnaheilla og UNICEF auk ráðgjafahóps umboðsmanns barna höfðu áður staðið að námskeiði fyrir verðandi talsmenn þar sem þeir kynntu þeim ákvæði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og hvernig hann má nota sem hagnýtt verkfæri við ákvarðanatöku og stefnumótun. Ungmennin lögðu áherslu á að réttindi barna yrðu höfð að leiðarljósi við allar ákvarðanir talsmannanna á þingi.

Þingmenn úr öllum flokkum gerðust talsmenn barna á Alþingi 7. mars síðastliðinn. Þeir skuldbunda sig þannig til að hafa barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi við störf sín. Fulltrúar ungmennaráða Barnaheilla og UNICEF auk ráðgjafahóps umboðsmanns barna höfðu áður staðið að námskeiði fyrir verðandi talsmenn þar sem þeir kynntu þeim ákvæði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og hvernig hann má nota sem hagnýtt verkfæri við ákvarðanatöku og stefnumótun. Ungmennin lögðu áherslu á að réttindi barna yrðu höfð að leiðarljósi við allar ákvarðanir talsmannanna á þingi.

TalsmennTalsmenn barna á nýju kjörtímabili eru Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna; Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata; Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins; Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins; Nichole Leigh Mosty, þingmaður Bjartrar framtíðar; Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar.

Talsmenn barna leitast við að tileinka sér barnvæn sjónarmið, bera réttindi og hagsmuni barna fyrir brjósti og meta og vekja athygli á áhrifum þeirra ákvarðana sem teknar eru á þinginu á börn dagsins í dag sem og börn framtíðarinnar.

Brynhildur Kristín Ásgeirsdóttir frá ungmennaráði Barnaheilla, Inga Huld Ármann fulltrúi úr ráðgjafarhópi umboðsmanns barna og Lilja Hrund Ava Lúðvíksdóttir, formaður ungmennaráðs UNICEF á Íslandi ávörpuðu talsmenn barna þegar þeir voru skipaðir á Alþingi. Þær ræddu um lögbundinn rétt barna og ungmenna til þátttöku og rétt þeirra til að tjá skoðanir sínar í þeim málum sem þau varða og verið er að taka ákvarðanir um. Sömuleiðis minntu þær á mikilvægi þess að tekið sé réttmætt tillit til skoðana og hagsmuna barna og ungmenna.

Barnaheill, umboðsmaður barna og UNICEF á Íslandi eiga hugmyndina að því að skipa talsmenn barna, sem fyrst var gert 2014. Allir þingflokkar útnefna bæði aðalmann og varamann og talsmenn eru því úr öllum flokkum sem sitja á þingi.

Sigríður Guðlaugsdóttir 

Greinin birtist í Blaði Barnaheilla 2017.