Nýr formaður stjórnar Barnaheilla ? Save the Children á Íslandi

Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur var kosinn formaður stjórnar Barnaheilla – Save the Children á Íslandi á aðalfundi samtakanna 14. maí sl. Tap varð af rekstri samtakanna á árinu 2011 en staða þeirra er engu að síður mjög sterk.

Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur var kosinn formaður stjórnar Barnaheilla – Save the Children á Íslandi á aðalfundi samtakanna 14. maí sl. Tap varð af rekstri samtakanna á árinu 2011 en staða þeirra er engu að síður mjög sterk.

Auk Kolbrúnar Baldursdóttur hlaut Sigríður Olgeirsdóttir kosningu í stjórn. Þá voru endurkjörnir í stjórn Ásta Ágústsdóttir sem varaformaður, Guðrún Kristinsdóttir og Helga Sverrisdóttir sem meðstjórnendur. Í stjórn samtakanna eru fyrir Dögg Pálsdóttir og Ágúst Þórðarson, sem er gjaldkeri stjórnar. María Sólbergsdóttir og Þórarinn Eldjárn hlutu kosningu sem varamenn, en ásamt þeim er Tryggvi Helgason varamaður. Helgi Ágústsson, fyrrverandi sendiherra lætur af starfi formanns eftir 3 ára starf og þá hefur Petrína Ásgeirsdóttir framkvæmdastjóri sagt starfi sínu lausu. Þeim voru færðar þakkir fyrir vel unnin störf í þágu samtakanna á aðalfundinum. 

Starfsemi Barnaheilla – Save the Children á Íslandi var með hefðbundnum hætti á síðasta ári. Sem fyrr var höfuð áherslan í innlendu starfi á vernd barna gegn ofbeldi, málsvarahlutverk, heilbrigðismál og að tryggja að rödd barna heyrist. Helstu áherslur í erlendum verkefnum voru á grunnmenntun barna, vernd barna gegn ofbeldi og heilbrigðismál í gegnum neyðaraðstoð. 

Tap varð af rekstri samtakanna á árinu 2011 að fjárhæð kr. 10.680.972 samkvæmt rekstrarreikningi. Eigið fé í árslok er jákvætt um kr. 87.687.383 samkvæmt efnahagsreikningi ársins. Eiginfjárhlutfall samtakanna var 96% í lok reikningsársins 2011. Hjá samtökunum störfuðu 5 fastráðnir starfsmenn ásamt 3 lausráðnum starfsmönnum.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru frjáls félagasamtök sem stofnuð voru árið 1989.  Hlutverk samtakanna er að standa vörð um mannréttindi barna og vera málsvari þeirra á grundvelli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.