Nýtt og endurbætt Vináttunámsefni kynnt í tilefni af Degi gegn einelti

Í tilefni af Degi gegn einelti sem haldinn er árlega þann 8. nóvember, kynntu Barnaheill – Save the Children á Íslandi nýútkomið forvarnaefni gegn einelti fyrir grunnskóla. Um er að ræða hluta af Vináttu – forvarnaverkefnis gegn einelti fyrir börn frá 0 – 9 ára.

Kynningin á efninu fór fram  þann 6. nóvember kl. 14:30 á veffundi.

Dagskrá kynningarinnar:

  1. Opnunarorð
  2. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og verndari Vináttu flutti ávarp
  3. Myndasýning þar sem saga verkefnisins var rakin og nýja efnið kynnt
  4. Nemendur úr Kerhólsskóla í Grímsnes- og Grafningshreppi sungu lagið Blær syngur
  5. Kveðja frá fulltrúa Red Barnet og Mary Fonden í Danmörku
  6. Lokaorð

Vinátta er byggð á nýjustu rannsóknum á einelti, ákveðinni hugmyndafræði og gildum og raunhæfum verkefnum fyrir börn, starfsfólk og foreldra. Með útgáfu efnisins stendur nú öllum leik- og grunnskólum lansins, dagforeldrum og frístundaheimilum til boða að fá Vináttu – námsefnið til notkunar, sækja námskeið og verða Vináttuskólar.

Vinátta var fyrst tilraunakennd í 6 leikskólum í jafnmörgum sveitarfélögum veturinn 2014 – 2015. Efnið var gefið út í endurbættri útgáfu árið 2016 og nú eru 60% leikskóla landsins orðnir Vináttuskólar.  Mikil ánægja er með Vináttu hjá þeim skólum sem hafa tileinkað sér efnið og árangur góður.

Hér að neðan má sjá kynningarmyndband á grunnskólaefni Vináttu