Ofbeldi gegn börnum er staðreynd

Barnaheill-34Aðeins 25 lönd í heiminum hafa staðfest með lögum bann við líkamlegu ofbeldi gegn börnum  Þetta kom fram á málþingi sem Barnaheill – Save the Children á Íslandi stóðu fyrir á Hilton Reykjavík Nordica hóteli miðvikudaginn 26. maí sl. Þar var m.a. fjallað um birtingarmyndir ofbeldis gegn börnum víða um heim og mögulegar leiðir til að stöðva það.

Barnaheill-34Meðal þeirra sem tóku til máls á málþinginu var Jasmine Whitbread, framkvæmdastjóri alþjóðasamtaka Barnaheilla – Save the Children en hún fjallaði um ofbeldi gegn börnum á heimsvísu og hvernig bregðast verði við því. Hún sagði meðal annars frá rannsókn Sameinuðu þjóðanna á ofbeldi gegn börnum en þar kemur fram að börn í hverju einasta landi í heiminum verða fyrir ofbeldi, s.s. kynferðislegu ofbeldi og misnotkun, mansali, líkamlegum og niðurlægjandi refsingum, vinnuþrælkun og ofbeldi sem tengist hefðum (umskurður á kynfærum og hjónabönd barna). Þessi brot á mannréttindum barna verða innan fjölskyldna, í nærumhverfi barnsins , í skólum og á stofnunum, í vinnuumhverfi, í stríðsátökum og náttúruhamförum.

Samkvæmt íslenskum lögum og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eiga börn rétt á vernd gegn öllu
ofbeldi, líkamlegu, andlegu og kynferðislegu og gegn vanrækslu. Þau eiga jafnframt rétt á hjálp ef þau hafa orðið fyrir slíku.

Petrína Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children á Íslandi fjallaði um ábyrgð einstaklingsins og hvað hann getur gert til að stöðva ofbeldi gegn börnum. S. Ingibjörg Jósefsdóttir, skólastjóri Hagaskóla fjallaði um vináttu, virðingu og jafnrétti í Hagaskóla, þ.e. hvernig skólinn vinnur í eineltismálum og að forvörnum gegn einelti, en skólinn er Olweusarskóli. Fulltrúar Ungmennaráðs Barnaheilla – Save the Children á Íslandi ræddu um einelti í skólum frá sjónarhóli nemenda. Erindi Þorbjargar Sveinsdóttur, sérfræðings í Barnahúsi vakti sérstaka athygli gesta en hún fjallaðium virka hlustun, þ.e. mikilvægi þess að hlusta á börn og unglinga til að koma í veg fyrir ofbeldi. Um 300 börn komu í viðtöl í Barnahúsi á síðasta ári. Halldór Hauksson, sviðsstjóri Barnaverndarstofu sagði frá úrræðum á vegum stofnunarinnar til að hjálpa börnum sem orðið hafa fyrir ofbeldi. Í máli hans kom m.a.fram að tilkynningum til Barnaverndarstofu hefur fjölgað á liðnu ári og fyrstu þrjá mánuði þess árs hækkaði hlutfall tilkynninga þar sem um heimilisofbeldi er að ræða úr 3,7% í 5,8%.

Helgi Ágústsson, formaður stjórnar Barnaheilla – Save the Children á Íslandi bauð gesti velkomna en Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands og verndari samtakanna setti málþingið. Fundarstjóri var Þórdís Elva Þorvaldsdóttir.

Viltu vita meira um það hvað þú getur gert til að koma í veg fyrir ofbeldi á börnum? www.barnaheill.