Össur Geirsson, skólastjóri Skólahljómsveitar Kópavogs hlýtur viðurkenningu Barnaheilla 2022

F.v. Ellen Calmon framkvæmdastýra Barnaheilla, Össur Geirsson skólastjóri Skólahljómsveitar Barnahei…
F.v. Ellen Calmon framkvæmdastýra Barnaheilla, Össur Geirsson skólastjóri Skólahljómsveitar Barnaheilla, Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Harpa Rut Hilmarsdóttir stjórnarformaður Barnaheilla

Össur Geirsson, skólastjóri Skólahljómsveitar Kópavogs hlaut í dag Viðurkenningu Barnaheilla – Save the Children á Íslandi árið 2022. Össur hefur í störfum sínum veitt miklum fjölda barna og ungmenna innblástur og hvatningu. Hann hefur óbilandi trú á ungu fólki og hefur einstakt lag á að laða fram það besta í hverju og einu barni. Hann leggur áherslu á samvinnu á meðal nemenda í störfum sínum og kallar fram jákvæðan aga, metnað og samkennd.

Barnaheill veita árlega viðurkenningu fyrir sérstakt framlag í þágu barna og mannréttinda þeirra í tengslum við afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þann 20. nóvember. Viðurkenningin er afhent til að vekja athygli á Barnasáttmálanum og mikilvægi þess að íslenskt samfélag standi vörð um mannréttindi barna. Barnasáttmálinn er leiðarljós í öllu starfi Barnaheilla.

Harpa Rut Hilmarsdóttir, formaður Barnaheilla, flutti ávarp og tilkynnti hver hlyti viðurkenninguna. Herra Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flutti ávarp og afhenti viðurkenninguna. Svanlaug Böðvarsdóttir nemandi í Fellaskóla flutti atriði úr Skrekk – ,,Skrekkur og Fellaskólafordómar” og Skólahljómsveit Kópavogs flutti tónlistaratriði. Bergrún Íris Sævarsdóttir stjórnarkona Barnaheilla stýrði athöfninni.

 

Svanlaug Böðvarsdóttir nemandi í Fellaskóla flutti atriði úr Skrekk – ,,Skrekkur og Fellaskólafordómar”. Hér er hún ásamt Guðna Th. forseta Íslands


Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru hluti af alþjóðasamtökunum Save the Children sem vinna að réttindum og velferð barna með barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Barnaheill eru leiðandi afl í að breyta viðhorfum og verklagi varðandi málefni barna. Framtíðarsýn Barnaheilla er heimur þar sem sérhvert barn hefur tækifæri til að lifa og þroskast, fær gæðamenntun, lifir öruggu lífi og hefur tækifæri til að hafa áhrif.
Við stöndum vaktina í þágu barna og gætum réttinda þeirra.