Óttast er að yfir 200 börn hafi látið lífið í flóðum í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó

Að minnsta kosti 90 börn hafa orðið viðskila við foreldra sína í Suður Kivu í Lýðstjórnarlýðveldinu …
Að minnsta kosti 90 börn hafa orðið viðskila við foreldra sína í Suður Kivu í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó

Hræðileg flóð og aurskriður riðu yfir Suður Kivu hérað í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó á dögunum. Óttast er að um 200 börn hafi látist og að minnsta kosti 90 orðið viðskila við foreldra sína. Um er að ræða einar af mannskæðustu náttúruhamförum í sögu landsins.

Síðastliðna viku hafa um 410 manns látist í flóðunum, helmingur þeirra börn, þar á meðal a.m.k. 30 skólanemar og sex kennarar. Meira en 5.500 manns eru enn týndir. Áætlað er að 3.000 heimili og sex skólar hafi eyðilagst.

Íbúar í Suður Kivu héraði eru nú þegar að ganga í gegnum verstu matarkreppu sem þeir hafa upplifað í marga áratugi. Auk þess sem vopnuð átök, kóleru- og mislingafaraldrar hafa geisað þar undanfarin ár. Að minnsta kosti 1,8 miljónir manna þurfa á mannúðaraðstoð að halda í Suður Kivu og um 20% íbúa eru á vergangi.

Cecilia Thiam, yfirmaður mannúðarmála hjá Barnaheillum – Save the Children í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó, segir að óregluleg úrkoma, flóð þar með talin, hafi orðið algengari á undanförnum árum vegna loftslagsbreytinga.

,,Flóðin hafa haft skelfileg áhrif á samfélög í Suður Kivu. Við höfum miklar áhyggjur af öryggi og heilsu barna á svæðinu, þar á meðal þeirra sem hafa því miður misst foreldra eða orðið viðskila við fjölskyldur sínar," segir Cecilia

Hún segir að þúsundir heimila hafi eyðilagst vegna mikilla rigninga og að margir mikilvægir vegir hafi lokast vegna aurskriða. Þetta ástand gerir erfiðara fyrir að veita aðstoð sem sáraþörf er á. Barnaheill – Save the Children sendu teymi neyðarviðbragðsaðila til hamfarasvæðanna til þess að styðja við aðgerðir yfirvalda og eru að setja upp skammtíma lærdómsrými með mötuneytum til þess að tryggja að börn á svæðunum geti sótt skóla.

„Þessi hörmulegu flóð þessa undanförnu viku hafa enn og aftur sýnt fram á að jaðarsettustu samfélög heims finna mest fyrir áhrifum loftslagsbreytinga. Það verður að setja undirbúning og aðlögun að öfgaveðrum sem þessum í forgang,“ segir Cecilia.

Yfir 26,4 milljónir manna í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó þurfa á mannúðaraðstoð að halda – eða um einn af hverjum fjórum íbúa – þar á meðal 14,2 milljónir barna. Barnaheill – Save the Children á Íslandi, með stuðningi utanríkisráðuneytisins, styðja Barnvæn svæði í Suður Kivu í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó. Tilgangur Barnvænna svæða er að skapa umhverfi þar sem börn geta komið saman til að leika sér og taka þátt í starfsemi sem er bæði fræðandi og efla félags- og tilfinningalega færni. Í þessum rýmum er lögð áhersla á valdeflingu barna og er þeim kennt hvert skuli leita þegar þau þurfa á aðstoð að halda. Allt starfsfólk sem vinnur að verkefni Barnaheilla í Suður-Kivu er þjálfað í að þekkja og bregðast við ofbeldi, með áherslu á kynferðisofbeldi.