Réttur barna til að lifa og þroskast

vika_43Í tilefni vímuvarnarviku, vilja Barnaheill – Save the Children á Íslandi, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) og umboðsmaður barna árétta rétt barna til verndar gegn misnotkun áfengis heima og að heiman sem og rétt barna til upplýsinga um skaðsemi áfengis, tóbaks og annarra ávana og fíkniefna. Þau eiga jafnframt rétt á vernd gegn auglýsingum um þessi efni.

vika_43Í tilefni vímuvarnarviku, vilja Barnaheill – Save the Children á Íslandi, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) og umboðsmaður barna árétta rétt barna til verndar gegn misnotkun áfengis heima og að heiman sem og rétt barna til upplýsinga um skaðsemi áfengis, tóbaks og annarra ávana og fíkniefna. Þau eiga jafnframt rétt á vernd gegn auglýsingum um þessi efni.

Í 33. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir að aðildarríki að sáttmálanum skuli gera allar viðeigandi ráðstafanir, þ. á m. á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntamála, til að verja börn gegn ólöglegri notkun ávana- og fíkniefna og skynvilluefna. Ísland er eitt þeirra ríkja sem staðfest hefur barnasáttmálann.

Með 33. gr. er fyrst og fremst lögð áhersla á vernd fyrir börn og forvarnir ásamt aðgengi að upplýsingum. Þetta ákvæði ber að túlka í samhengi við barnasáttmálann í heild sinni. Börn eiga ekki einungis rétt á vernd gegn því að þurfa að búa við misnotkun áfengis og vímuefna heima hjá sér heldur er ljóst að börn eiga einnig rétt á upplýsingum um skaðsemi áfengis, tóbaks og annarra ávana- og fíkniefna. Þau eiga jafnframt rétt á vernd gegn auglýsingum og markaðssetningu sem miðar að því að auka neyslu þessara efna eða stuðla að jákvæðu viðhorfi til þeirra.

Það er skylda samfélagsins að tryggja rétt barna  til að lifa og þroskast, sbr. 6. gr. barnasáttmálans. Til að barn geti náð fullum þroska er nauðsynlegt að aðstæður þess séu nógu góðar til að það nái líkamlegum, andlegum, siðferðilegum og félagslegum þroska, sbr. 27. gr. barnasáttmálans. Hér er ekki einvörðungu horft til framtíðar barna heldur er ákvæðinu ætlað að tryggja börnum ákjósanleg uppeldisskilyrði frá fyrsta degi.

Foreldrar og fjölskylda barna bera aðalábyrgð á uppeldi þeirra og eiga að stuðla að því að börn megi lifa og dafna í þroskavænlegu umhverfi. Aðildarríkjum ber hins vegar að veita viðeigandi aðstoð þegar slíkt er nauðsynlegt til að börn geti lifað og þroskast, sbr. 18. gr. og 27. gr. sáttmálans. Það er skylda ríkisins að hlúa að börnum innan samfélagsins þannig að þau búi við uppbyggileg og þroskavænleg skilyrði með vísan til eiginleika þeirra sem einstaklinga.