Sameiginleg yfirlýsing um drög að nýju frumvarpi til laga um fæðingar- og foreldraorlof

Barnaheill, Geðverndarfélag Íslands og Fjölskyldufræðingafélag Íslands – fagfólk í fjölskyldumeðferð  hafa birt yfirlýsingu um drög að nýju frumvarpi til laga um fæðingar- og foreldraorlof. Í yfirlýsingunni er lögð áhersla á meginhugmyndina um fæðingarorlof sem kemur fram í markmiðsgrein laganna, 2. greininni, að fæðingarorlof foreldra sé til að tryggja barni samvistir við foreldra. Barnið er m.ö.o. miðpunktur laganna og þarfir þess þar með í öndvegi. Í yfirlýsingunni er lögð áhersla á að þarfir barnsins komi alltaf í fyrsta sæti og að þarfir foreldranna þurfi að laga að þörfum barnsins, en ekki öfugt. Þannig á hvert barn að fá tólf mánaða sjálfstæðan rétt til orlofs með foreldri eða foreldrum.

Í yfirlýsingunni segir að með frumvarpinu sé verið að tryggja rétt foreldra, en ekki barna. ,,Sú breyting sem er lögð til með þessu frumvarpi felst í því að tryggja foreldrum, ekki barninu, rétt til samvista, þrátt fyrir að markmiðsgrein laganna sem áður var vitnað til, orði það skýrt að markmiðið sé að tryggja barninu rétt til samvista. Sú regla að tryggja foreldrum sjálfstæðan rétt, 6 mánuði hvoru, og að hann sé ekki framseljanlegur, brýtur gegn bæði barninu og markmiðsgrein laganna, sbr. 1. mgr. 2. gr. Þetta er augljóst í tilfelli einstæðra foreldra, þar sem annað þeirra getur af einhverjum ástæðum ekki verið samvistum við barnið (ekki er vitað hver faðirinn er, foreldri er alvarlega veikt, er óhæft eða vill ekki umgangast barnið). Börn sem þannig stendur á um fá þá eftir þessa breytingu 6 + 1 mánuð, 7 mánuði samtals, meðan önnur börn fá 12 mánuði. Barn einstæðs foreldris í dæminu hér á undan ætti ekki að fá minni tíma með foreldri sínu.”

Frumvarpið gerir ráð fyrir styttingu á tímabilinu sem foreldrar geta tekið orlof, niður í 18 mánuði en í yfirlýsingunni er lagt til að tímabil orlofstöku skal áfram vera minnst 24 mánuðir.

,,Það skiptir hins vegar máli fyrir foreldra að hafa ákveðinn sveigjanleika í töku orlofsins þar sem aðstæður til að taka orlof geta verið mismunandi, sumir foreldrar þurfa að skipta orlofinu upp í 50% greiðslur til lengri tíma og því óæskilegt að stytta tímabilið,” segir í yfirlýsingunni.

Hægt er að lesa yfirlýsinguna í heild sinni hér