Samráð við ungmenni í ákvörðunum Menntamálastofnunar

Menntamálastofnun hyggst í framtíðinni leita til ungmenna vegna ákvarðanatöku í málefnumsem þau varða. Ingibjörg Ragnheiður Linnet, fulltrúi í ungmennaráði Barnaheilla, sat á dögunum samráðsfund stofnunarinnar ásamt fulltrúum annarra ungmennaráða.

MMS samra´ð 2016 copyMenntamálastofnun hyggst í framtíðinni leita til ungmenna vegna ákvarðanatöku í málefnumsem þau varða. Ingibjörg Ragnheiður Linnet, fulltrúi í ungmennaráði Barnaheilla, sat á dögunum samráðsfund hjá stofnuninni með fulltrúum annarra ungmennaráða. 

Skoðanir ungmennanna á ýmsum málefnum og verkefnum stofnunarinnar voru rædd. Þar á meðal breytingar á einkunnagjöf við lok grunnskóla, rafræn samræmd könnunarpróf, þjóðarsáttmáli um læsi og rafræn námsefnisgerð. Einnig var talað um styttingu framhaldsskóla og kennslu í lífsleikni og sundi í grunnskólum.

Að lokinni vinnu með umræðuefnin í vinnustofum kynntu ungmennin niðurstöðurnar og fóru fram fjörugar umræður í kjölfarið. Meginniðurstöðurnar voru þessar:

  • Óskað var eftir því að samráð verði í framtíðinni haft við ungmenni þegar teknar eru ákvarðanir sem þau varða.
  • Ungmennin voru ósátt og gerðu athugasemdir við að hafa ekki verið aðspurð vegna ákvarðana t.d. um breyttan einkunnakvarða. 
  • Kallað var eftir kynningum sem ná beint til nemenda á mikilvægum málefnum.

Í lok fundarins var Arnóri Guðmundssyni, forstjóra Menntamálastofnunar, afhent ályktun af landsþingi ungs fólks á Akureyri 9. október síðastliðinn þar sem meðal annars var gerð athugasemd við að ekki var haft samráð um styttingu framhaldsskóla eða breyttan einkunnakvarða.

Unnið verður úr niðurstöðum fundarins og skýrsla birt á heimasíðu stofnunarinnar sem einnig verður kynnt fyrir mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Auk Ingibjargar sátu fundinn fulltrúar ungmennaráða frá SAFT, Samfés, Unicef, umboðsmanni barna, UMFÍ og sveitarfélaganna Árborg, Akureyri, Fjarðarbyggð og Stykkishólmi.