Save the Children gegn Ebólu í Síerra Leóne

Barnaheill – Save the Children vinna gegn Ebólufaraldrinum í fjórum héruðum í Síerra Leóne. Áhersla er lögð á vitundarvakningu og að koma í veg fyrir smit.

Barnaheill – Save the Children vinna gegn Ebólufaraldrinum í fjórum héruðum í Síerra Leóne. Áhersla er lögð á vitundarvakningu og að koma í veg fyrir smit.

Verkefnin miða einnig að því að efla heilsugæslu á þeim stöðum sem hún hefur veikst vegna faraldursins. Með verkefnum tengdum heilsu, vernd barna, menntun og mannréttindum barna hafa samtökin náð til um 100.000 manns frá því að viðbragðsáætlun samtakanna vegna Ebólu hófst í mars 2014.

Kerry Town

Kerry Town meðferðarstöðin opnaði þann 5. nóvember 2014 og er starfrækt með 80 rúmum. Þessi sérhæfða miðstöð er 40 km frá höfuðborginni Freetown. Þar er einnig sérstök rannsóknarstofa sem vinnur úr sýnum. Þeir sem greinast með Ebólu eru sendir til meðferðar í miðstöðina þar sem gengið er úr skugga um að þeir smiti ekki aðra af vírusnum.

Miðstöðin er rekin í náinni samvinnu við heilbrigðisyfirvöld og miðar að því að sjúklingar fái meðferð eins fljótt og auðið er. Um áramótin höfðu 76 sjúklingar verið útskrifaðir eftir meðferð í stöðinni og rúmlega 210 hafa verið til meðferðar.

Starfsmenn Kerry Town miðstöðvarinnar eru 430, þar af eru 85 alþjóðlegir starfsmenn. Allir starfsmenn Save the Children í Síerra Leóne hafa boðið sig fram til að starfa við þessar aðstæður. Þeir fá þjálfun og þurfa bæði staðfestingu frá lækni og sálfræðingi áður en þeir fara af stað. Auk þess fær starfsfólk þjálfun í notkun hlífðarbúnaðar áður en þeir fá að fara inn á áhættusvæði. Öryggi starfsmanna er í forgangi.

Meðferð á fyrstu stigum sjúkdómsins getur skilið milli lífs og dauða. Frá opnun miðstöðvarinnar hafa lífslíkur sjúklinga verið um 50% en á síðustu vikum eru vísbendingar um að sú tala fari hækkandi.

Barnaheill - Save the Children hafa einnig þjálfað um 300 heilbrigðisstarfsmenn sem ganga hús úr húsi í hverfum Freetown þar sem Ebóla hefur gert vart við sig til að hjálpa fjölskyldum að þekkja einkenni og hvert beri að snúa sér vakni grunur um smit.