Sex mánuðir af skelfilegu stríði

Sex mánuðir eru síðan stríðið sem geisað hefur á Gaza hófst. Stríð sem hefur haft skelfilegar afleiðingar fyrir börn. Meira en 13.800 börn á Gaza-svæðinu hafa verið myrt, auk 106 barna á Vesturbakkanum og 33 barna í Ísrael.

Ástandið á Gaza er grafalvarlegt. Skólar, heilbrigðisstofnanir og heimili hafa verið gjöreyðilögð. 1,7 milljón manns eru á vergangi og yfir ein milljón barna standa frammi fyrir yfirvofandi hungursneyð.

Starfsfólk alþjóðasamtaka Barnaheilla - Save the Children hafa starfað allan sólarhringinn við mjög krefjandi aðstæður við að aðstoða viðkvæmustu hópa barna og fjölskyldna.

Með stuðningi Heillavina um allan heim og fjármagni til neyðaraðstoðar samtakanna hefur okkur tekist að veita yfir 377,400 manns á átakasvæðinu, þar af yfir 323,200 manns á Gaza, neyðaraðstoð síðastliðna sex mánuði.

Aðstoð á Vesturbakkanum

Einnig höfum við aðstoðað yfir 14,600 manns, þar af 8,900 börn, á Vesturbakkanum. Þar hefur ofbeldi ísraelskra landnema gegn fjölskyldum færst í aukana. Við höfum veitt að minnsta kosti 55 fjölskyldum neyðaraðstoð í formi reiðufés. Starfsfólk okkar starfar þrotlaust við að tryggja öryggi barna á svæðinu.

Aðstoð í Egyptalandi

Við höfum útvegað yfir 684,000 lítra af vatni, 5,000 matarpakka og 3,000 ungbarnapakka með helstu nauðsynjum, auk hreinlætispakka og hjálpargagna eins og tjalda. Þar að auki höfum við sent sérhæft heilbrigðisstarfsfólk á vettvang til þess að stýra aðgerðum hvað varðar flutning og dreifingu heilbrigðisgagna.

Þökk sé samstarfi okkar við Community Jameel er okkur kleift að aðstoða flóttafólk í Egyptalandi sem kemur frá Gaza og þarf á heilbrigðisþjónustu að halda. Sem felst meðal annars í úthlutun heilbrigðisgagna og þjálfun sjúkraflutningamanna hvað varðar nýfædd börn og fyrirbura sem þarfnast sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu.

Aðstoð í Líbanon

Á síðustu sex mánuðum höfum við komið 39.000 manns, þar af 15.000 börnum, sem hafa hrakist á flótta vegna vaxandi ofbeldis, í skjól í flóttamannabúðum og útvegað fósturfjölskyldur.

Við höfum einnig komið neyðarvistum eins og drykkjarvatni, matarpökkum, námsgögnum, hreinlætisvörum, dýnum, koddum og teppum til þeirra og veitt sálrænan stuðning.

Áframhaldandi stuðningur

Óheft aðgengi að mannúðaraðstoð er lykilatriði til þess að halda aðgerðum okkar áfram af auknum krafti. Eftir hálft ár af stríði köllum við eftir tafarlausu vopnahléi til að binda enda á ofbeldið, svo hægt sé að veita börnum þá neyðaraðstoð sem þau þurfa sárlega á að halda.