Sigurgeir safnaði 807.000 fyrir börn á átakasvæðum

Þann 22. júlí synti Sigurgeir Svanbergsson frá Vestmannaeyjum til Landeyjasanda til styrktar verkefnum Barnaheilla sem styðja við börn sem búa á átakasvæðum. Sigurgeir er sjötti einstaklingurinn sem hefur synt þessa leið svo vitað sé um. Í dag afhenti Sigurgeir styrktarféð en samtals söfnuðust 807.000 krónur.

Barnaheill vilja þakka Sigurgeiri kærlega fyrir að sýna börnum sem búa á átakasvæðum þennan stuðning í verki. Það var virkilega gaman að fylgjast með honum frá upphafi til enda. Einnig þakka samtökinöllum sem hétu á eyjasund Sigurgeirs. Barnaheill munu sjá til þess að styrktarféð renni í þau verkefni samtakanna sem stuðla að stuðningi við börn á átakasvæðum.

Barnaheill – Save the Children starfa í 120 löndum og veita meðal annars neyðaraðstoð á átakasvæðum en í dag býr eitt af hverjum sex börnum heimsins, eða 450 milljónir barna á átakasvæðum. Þessi börn eiga í töluvert meiri hættu en önnur börn á að verða fyrir ofbeldi. Barnaheill hafa sett upp svokölluð barnvæn svæði víða um heim þar sem börn á átakasvæðum geta fundið öruggt athvarf til þess að læra og leika sér. Þau fá einnig sálfræðilegan stuðning frá starfsfólki Barnaheilla.