Sjö ár frá upphafi stríðsins í Sýrlandi

Eyðileggingin í A-Ghouta í Sýrlandi/Save the Children
Eyðileggingin í A-Ghouta í Sýrlandi/Save the Children

Þann 15. mars sl. voru sjö ár frá því að stríðið í Sýrlandi hófst. Tala látinna og slasaðra í stríðinu í Sýrlandi hækkað um nærri 50% frá því sett voru á svo kölluð „vopnahléssvæði“. Nýjustu tölur sýna að hryllingurinn í Sýrlandi heldur áfram. Það hefur algerlega mistektist að skipuleggja svæði þar sem vopnahlé heldur. Að minnsta kosti 37 almennir borgara hafa látið lífið á degi hverjum frá miðju ári 2017. Það er aukning um 45% á landsvísu frá því að vopnahléssvæði eins og Idlib og Austur-Ghouta voru ákveðin.

Nú þegar sjö ár eru liðin frá því Sýrlandsstríðið hófst hvetja Barnaheill – Save the Children alþjóðasamfélagið til að grípa í taumana og hætta að horfa fram hjá gengdarlausum árásum á þessi svæði, binda enda á ofbeldið og auka eftirlit með því að farið sé að alþjóðalögum um mannréttindi.

Í Austur-Ghouta, þar sem hundruðir manna hafa látið lífið aðeins á síðustu vikum, neyðast börn til þess að búa í kjöllurum og frumstæðum skýlum þar sem þau láta lífið í sprengju- og skotárásum eða vegna ómeðhöndlaðra sára, sjúkdóma og vannæringar. Þessi börn þjást ennfremur af gríðarlegri áfallastreitu þar sem þau lifa í stöðugum ótta um líf sitt, eru á flótta og glata tækifærinu til að ganga í skóla þar sem skólar verða fyrir árásum.

Barnaheill – Save the Children hafa rætt við starfsfólk hjálparsamtaka, börn, foreldra, lækna, kennara og æskulýðsleiðtoga á umsetnum svæðum í Austur-Ghouta sem og í norð-vesturhluta landsins og birt niðurstöðurnar í skýrslunni, Voices from Syria‘s Danger Zones

Um mitt ár 2017 var tilkynnt um fjögur vonpnahléssvæði í Sýrlandi. Þeim var ætlað að tryggja almennum borgurum skjól fyrir árásum. En raunin hefur orðið önnur þar sem í ljós hefur komið að ástandið hefur jafnvel versnað á sumum þessara svæða. Ný greining á stöðu mála sýnir að frá því vopnahléssvæðin voru sett á hefur:

  • Orðið sprenging í fjölda þeirra sem hafa hrakist frá heimilum sínum þar sem allt að 250 börn flýja á hverri klukkustund – þetta er 60% aukning frá því að tilkynnt var um vopanhléssvæðin.
  • Fjöldi látinna og slasaðra hefur aukist um 45% – tilkynnt hefur verið um að allt að 37 almennir borgarar hafi orðið fyrir skoti eða sprenginu og látist á degi hverjum.
  • Árásum á skóla fjölgað og þar með menntunartækifærum sýrlenskra barna verið stórlega spillt.
  • Verið ráðist á heilbrigðisstofunun næstum aðra hverja viku.
  • Sýrlenskum borgurum kerfisbundið verið neitað um neyðaraðstoð.

Helle Thorning Schmidt framkvæmdastjóri Save the Children International hefur orðið: „Alþjóðasamfélagið hefur svikið sýrlensk börn of lengi. Næstum þrjár milljónir barna hafa vaxið úr grasi án þess að þekkja nokkuð nema stríð. Þrátt fyrir gefin loforð um vopnahlé er enn verið að varpa sprengjum á börn og heimili þeirra, skóla og sjúkrahús. Fjölskyldur eru í felum í kjöllurum og hafa ekki haft aðgang að nausynjum eins og mat og lyfjum svo mánuðum skiptir. Það á ekki að líðast að neyðaraðstoð sé notuð sem vopn með þessum hætti.

Jafnvel svæði sem sögð hafa verið örugg fyrir almenna borgara, svokölluð vopnahléssvæði, eru nú miðpunktur ofbeldis. Það verður að stöðva ofbeldið undir eins svo að hjálparsamtök á borð við okkar geti komið hjápargögnum til þeirra hundruða þúsunda barna sem eru innlyksa í Austur-Ghouta og öðrum svæðum þar sem átök geysa.

Alþjóðasamfélagið getur ekki horft aðgerðalaust fram hjá þessum þjáningum heillar kynslóðar barna. Það verður að beita áhrifum sínum til þess að koma á tafarlausu vopnahléi og fá stríðandi fylkingar að samningaborðinu til að binda enda á ofbeldið í eitt skipti fyrir öll.“ 

Myndir: Save the ChildrenFrá A-Ghouta/Save the Children

Fjölskylda í A-Ghouta, Sýrlandi