Skólar í Úkraínu enn lokaðir eftir 100 daga átök

Skólar í Úkraínu enn lokaðir – 100 dagar frá upphafi stríðs

Á fyrstu hundrað dögum stríðsins í Úkraínu hafa 1.888 skólar verið eyðilagðir eða skemmdir frá því að vopnaátök hófust 24. febrúar síðastliðinn. Úkraínska menntamálaráðuneytið segir stríðið nú þegar hafa haft gífurleg áhrif á menntun 7,5 milljón úkraínskra barna.

„Með hverjum deginum sem líður er líf barna og framtíð þeirra í mikilli hættu, þar sem við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd að aldrei fyrr hafa jafn margar árásir á skólabyggingar átt sér stað,” segir Onno van Manen, svæðisstjóri Barnaheilla - Save the Children í Úkraínu.

Á fyrstu hundrað dögum stríðsins í Úkraínu hafa 6,7 milljónir manna þurft að flýja land sitt, þar af helmingur barna. Það þýðir að daglega þurfa að meðaltali 33.500 börn að ganga í gegnum þessar hörmungar. Á sama tíma eru mörg börn eins og María, 13 ára, sem nýta skólabyggingar sem skýli frá árásum.

María flúði frá austur Donetsk svæðinu með móður sinni og sex ára bróður þegar árásir hófust á bæinn þeirra. Ferðalagið byrjaði með tveggja daga lestarferð sem endaði með því að finna barnvænt svæði Barnaheilla þar sem þau gátu komið sér fyrir í skólabyggingu.

„Þegar við fjarlægðumst bæinn okkar varð mér svo létt þegar ég heyrði ekki lengur í sprengingunum. En á sama tíma ótrúlega leið yfir því að vera yfirgefa heimilið mitt,” sagði María. „Það er allt breytt, við búum í öðruvísi umhverfi og það er fullt af fólki hérna. Mér líður samt í rauninni vel, líkamlega, en andlega hefur þetta verið mjög erfitt.“ Barnaheill í Úkraínu leggja fjölskyldunni til þjónustu og vernd, auk fjárstuðnings fyrir nauðsynjavörum, mat og lyfjum.

Áhrif á líf barna gífurleg

Eins og stendur eru allir skólar í Úkraínu lokaðir. Á hamfarasvæðum er skólaþjónustan oft það fyrsta sem er lokað, þrátt fyrir mikilvægi þess að börn komist í skóla og jafnframt eru skólar síðastir til að opna þegar samfélagið fer að taka við sér á ný. Barnaheill í Úkraínu hafa aðstoðað úkraínsk stjórnvöld og sveitarfélög við að efla fjarkennslukerfi landsins til að börn hafi aðgang að rafrænu skólaefni.

„Hver árás á skólabyggingar er árás á börn, rétt eins og hvert stríð er stríð gegn börnum“, heldur van Manen áfram. Barnaheill í Úkraínu eru að afhenda námsgögn til allra þeirra barna sem þau ná til, leikföng og bækur til að halda þeim við námið. Samtökin eru í samstarfi við menntamálaráðuneyti landsins við að koma á fót fleiri fjarkennslusvæðum fyrir börn víða um landið. Svæðin bjóða börnum öryggi til náms þar sem þau fá meðal annars tölvu eða önnur sambærileg tæki í hendur eða þau nota sín eigin tæki.

Lev, 11 ára drengur, býr nú í skýli í Chernivtsi um 1.000 kílómetra frá heimili sínu í Kharkiv. Hann hefur ekki farið í skólann frá því stríðið hófst, en hann hefur þó náð að læra áfram á netinu. „Ég hef ekki séð skólann minn lengi. Ég ætlaði að fara í skólann 24. febrúar, en ég gat það ekki,“ segir Lev, sem byrjaði að læra á netinu tveimur dögum áður en stríðið hófst. Mörg börn hafa ekki haft neinn möguleika til að læra síðustu hundrað dagana.

Fjarkennsla á vernduðum skólasvæðum

Barnaheill – Save the Children hafa sent ákall til aðila stríðsins um að stöðva með öllu árásir á skóla og sömuleiðis draga sig frá öllum skólabyggingum. Viðvera stríðsfylkinga á skemmdum skólasvæðum er með öllu óásættanleg, það stöðvar ekki einungis allt skólastarf heldur býður upp á frekari stríðsátök í framhaldinu. Skólasvæði verða að vera vernduð og örugg svæði þar sem tækifæri til að læra og leika er ávallt í forgrunni.

Alþjóðasamtök Barnaheilla – Save the Children hafa starfað í Úkraínu síðan 2014 og hafa veitt neyðaraðstoð til barna og fjölskyldna þeirra víða um land. Þau eru til staðar fyrir þann gífurlega fjölda fólks á flótta sem hefur orðið fyrir stríðsátökunum. Með nánu og góðu samstarfi við önnur mannúðarsamtök leggja samtökin fram tjöld, mat, eldsneyti og fjárframlög, barnavörur og sálræna aðstoð fyrir fjölskyldur á flótta. Ein af lykilstoðum í framlagi samtakanna er tækifærið til að halda áfram námi með fjarkennsluformi fyrir þau börn sem hafa þurft að yfirgefa heimili og skóla.

Stríðið bitnar verst á börnum – söfnun enn í gangi

Stríðið í Úkraínu bitnar verst á börnum sem eiga að njóta verndar öllum stundum, samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Neyðarsöfnun Barnaheilla er enn í gangi og stuðningur þinn skiptir okkur miklu. Framlag þitt mun renna til mannúðaraðstoðar samtakanna sem miðar að því að ná til barna eins og Maríu og Lev með nauðsynlega aðstoð en einnig öruggt umhverfi þar sem þau fá tækifæri til að halda áfram námi.

Neyðarsöfnunina er hægt að styðja hér, ef þú vilt styrkja starf Barnaheilla í Úkraínu.
Bankareikningur fyrir frjáls framlög:  0336 - 26 - 58, kt. 521089-1059.  
Auraðu í 123-5535900.