Skrifum undir áskorun til stjórnvalda: Burt með innkaupalista grunnskólanna!

Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa frá árinu 2015 vakið athygli á kostnaði foreldra vegna innkaupa á námsgögnum grunnskólabarna. Slíkur kostnaður er ekki einungis töluverður baggi fyrir barnafjölskyldur heldur er sú hefð, að foreldrar beri þennan kostnað, í ósamræmi við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Kostnaðarþátttaka foreldra er því í raun ólögleg samkvæmt Barnasáttmálanum og þess vegna óásættanlegt að innkaupalistar skuli enn vera við lýði.

ER minniBarnaheill – Save the Children á Íslandi hafa frá árinu 2015 vakið athygli á kostnaði foreldra vegna innkaupa á námsgögnum grunnskólabarna. Slíkur kostnaður er ekki einungis töluverður baggi fyrir barnafjölskyldur heldur er sú hefð, að foreldrar beri þennan kostnað, í ósamræmi við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Kostnaðarþátttaka foreldra er því í raun ólögleg samkvæmt Barnasáttmálanum og þess vegna óásættanlegt að innkaupalistar skuli enn vera við lýði.

En hvað hefur breyst síðan við hjá Barnaheillum vöktum athygli á málinu á haustdögum 2015?  Jú, örfá sveitarfélög hafa tekið það skref að afnema innkaupalista og er það öðrum til eftirbreytni. Í grunnskólalögum er þó enn glufa sem veldur því að sveitarfélög geta réttlætt að færa þennan kostnað á barnafjölskyldur. Ítrekaðar áskoranir á alþingismenn urðu til þess að síðastliðið haust lögðu 10 þingmenn minnihlutans fram frumvarp um breytingu laganna sem hefði tekið af öll tvímæli um að gjaldtaka fyrir námsgögn væri óheimil. Frumvarpið náði þó aldrei málsmeðferð á þinginu.

Fjölmargir foreldrar hafa haft samband við okkur og lýst ánægju sinni á baráttu samtakanna fyrir þessu máli. Komið hefur fram að kostnaður vegna námsgagna eins barns í gegnum alla tíu bekki grunnskóla getur numið allt að 160.000 krónum en um 83.000 krónur að meðaltali. Þá er ótalinn annar kostnaður sem fylgir skólagöngu eins og skólatöskur, pennaveski og íþróttafatnaður. Það má því ímynda sér hversu þungur baggi þessi kostnaður er, bæði barnmörgum fjölskyldum sem og þeim sem búa við bágan efnahag.

Undirskriftarsöfnun á vegum Barnaheilla hefur verið í gangi til að þrýsta á stjórnvöld í þessu máli.  Nú blásum við til lokaátaks í söfnun undirskrifta áður en nýjum menntamálaráðherra verður afhentur listinn og enn og aftur skorað á stjórnvöld að gera grunnskólann gjaldfrjálsan. Hægt er að skrifa undir áskorunina á vef Barnaheilla, www.barnaheill.is/askorun.

Við hvetjum alla sem láta sig velferð barna varða að skrifa undir. Tökum höndum saman og stöndum vörð um réttindi barna til náms án gjaldtöku! Burt með innkaupalistana!

Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri

Barnaheill – Save the Children á Íslandi

Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. mars 2017.