Spá óvenju köldum vetri í Sýrlandi

Veðurfræðingar spá óvenju hörðum vetri í Sýrlandi og nágrannalöndunum, þar sem meira en fimm milljónir sýrlenskra barna búa við afar erfiðar aðstæður. Þúsundir gætu átt í alvarlegum heilsufarsvandamálum af þessum sökum.

Fjölskyldan saman Zaatari Agnes MontanariVeðurfræðingar spá óvenju hörðum vetri í Sýrlandi og nágrannalöndunum, þar sem meira en fimm milljónir sýrlenskra barna búa við afar erfiðar aðstæður. Börnin geta átt von á vetri þar sem þau eru berskjölduð fyrir kulda, frosti og vætu. Þúsundir Sýrlendinga gætu átt í alvarlegum heilsufarsvandamálum af þessum sökum og þurft að kljást við ofkælingu og lungnabólgu.

Samkvæmt nokkrum langtímaspám er búist við að veturinn í ár verði einn sá kaldasti í heila öld á þessum slóðum.


„Þetta veldur miklum áhyggjum af heilsu og lífi flóttafólksins,“ segir Sigríður Guðlaugsdóttir, upplýsingafulltrúi Barnaheilla – Save the Children á Íslandi, en margir flóttamannanna búa að hennar sögn í tjöldum eða húsnæði sem hvorki halda vatni né vindum. „Síðasti vetur var til dæmis erfiður þegar flóð í Za‘atari flóttamannabúðunum gerðu fjölskyldum afar erfitt fyrir. Börn og foreldrar þeirra bjuggu þá við vætu og kulda í tjöldunum svo mánuðum skipti, en hitastig fer gjarnan undir frostmark á þessum slóðum yfir vetrarmánuðina.“


Við slíkar aðstæður er heilsu fólks stefnt í hættu, eins og Rami, 11 ára drengur í Za‘atari kynntist á eigin skinni; „Það er auðvelt að verða veikur þegar manni er stöðugt kalt.“ Í fyrravetur neyddist móðir hans til að fórna teppum sem fjölskyldan hafði fengið úthlutað í flóttamannabúðunum til að sauma hlý föt á hann og systkini hans.

Save the Children útvega flóttafólki innan og utan landamæra Sýrlands lífsnauðsynjar á borð við mat, teppi. hlý föt og búnað til að treysta vistarverur sínar; „En við erum í mikilli þörf fyrir meira fjármagn til að hjálpa sýrlenskum fjölskyldum að komast af,“ segir Sigríður.

Hægt er að styðja við flóttamannaaðstoðina með því að hringja í söfnunarsímana 904-1900 og 904-2900 eða leggja inn á söfnunarreikninginn 336-26-58, kt. 521089-1059.