Stærsta neyðarkall Barnaheilla – Save the Children frá upphafi – til verndar börnum gegn áhrifum Covid-19 heimsfaraldursins

Althea*, 1 árs, frá Filippiseyjum.
Althea*, 1 árs, frá Filippiseyjum.

Alþjóðasamtök Barnaheilla – Save the Children stefna að því að safna 100 milljónum dala til að geta brugðist hratt við og bjargað lífum milljóna barna.

Barnaheill – Save the Children vara við því að heimsfaraldur kórónaveirunnar muni ógna heilsu og menntun barna um allan heim. Í þessu stærsta fjáröflunarátaki í 100 ára sögu samtakanna er stefnt á að safna 100 milljón dollurum til þess að styðja við börn og fjölskyldur þeirra í Covid-19 heimsfaraldrinum.

Frá því að faraldurinn hófst hafa Barnaheill – Save the Children brugðist við þörfum barna á svæðum þar sem smit hafa komið upp, eins og í Kína, Bandaríkjunum og um alla Evrópu. Nú, þegar kórónaveiran er að breiðast út í þróunarlöndum vara samtökin við því að ef ekki er brugðist strax við útbreiðslu hennar í fátækari ríkjum, er hætta á því að um þrjár milljónir manna láti lífið.

Inger Ashing, framkvæmdastjóri alþjóðasamtaka Barnaheilla – Save the Children, hefur miklar áhyggjur af þróunarlöndum og segir börn nú þegar farin að líða fyrir óviðunandi heilbrigðiskerfi:

Við höfum öll séð hvernig Covid-19 hefur umturnað lífi fólks út um allan heim. Faraldurinn dreifist nú um í fátækustu ríkjum heims þar sem heilbrigðiskerfi eru veik fyrir. Börn hafa nú þegar fundið fyrir afleiðingum þess og fá ekki viðeigandi meðferð við malaríu, lungnabólgu og vannæringu. Það er nauðsynlegt að við grípum til skjótra aðgerða.

Með þeim fjármunum sem safnast munu Barnaheill – Save the Children styrkja núverandi starfsemi sína svo hægt sé að takast á við áhrif Kórónaveirunnar með því að vernda og styðja við börn á þeim svæðum sem verða hvað verst úti og búa við fátækt, eru á flótta eða búa á átakasvæðum. Þetta felur í sér að auka stuðning við heilbrigðiskerfin, veita fjárhagsstuðning til fjölskyldna sem missa tekjur vegna ástandsins, styðja við fylgdarlaus börn og tryggja börnum áframhaldandi aðgang að menntun.

Barnaheill – Save the Children hafa vaxandi áhyggjur af útbreiðslu veirunnar í flóttamannabúðum víða um heim sem og í Sýrlandi og Jemen þar sem stríð ríkir og innviðir eru veikir. Heilbrigðiskerfin í þessum löndum eru gífurlega brotin og ekki í stakk búin til þess að takast á við faraldurinn.

Ali* er 14 ára drengur úr þorpi í suðurhluta Idlib héraðs í Sýrlandi en hann og fjölskylda hans hafa verið á flótta síðastliðna tvo mánuði, eftir að þorpið hans varð fyrir loftárás:

Við erum vön stríðinu núna. Þegar við heyrum í sprengjum þá felum við okkur. En nú, með þennan vírus, þá getum við hvergi falið okkur.

Barnaheill – Save the Children vara við því að yngsta kynslóðin verði fyrir djúpstæðum áhrifum Kórónaveirunnar. Nú þegar er áætlað að 1,5 milljarður barna geti ekki mætt í skóla og með hverjum degi minnka líkurnar á því að fjöldi barna snúi aftur til náms. Í mörgum fátækustu samfélögunum heims er fátækt að aukast og þar með aukin hætta á barnaþrælkun og að unglingsstúlkur séu neyddar í hjónaband. Börn sem búa við heimilisofbeldi eru í aukinni hættu í þessu ástandi, þar sem þau eru innilokuð á heimilum sínum þar sem aðgengi eftir stuðningi er takmarkaður.

Undanfarnar vikur hafa Barnaheill – Save the Children gert viðbragðsáætlanir um allan heim. Í Rohingya flóttamannabúðum í Bangladess hafa samtökin dreift heilbrigðisgögnum, komið upp viðunandi hreinlætisaðstöðu, veitt fjölskyldum tekjuaðstoð og miðlað upplýsingum um hvernig hægt er að verja sig gegn vírusnum.

Í Jemen standa samtökin fyrir vitundarvakningu og fræðslu um mikilvægi hreinlætis og handþvottar en um 80 sjálfboðaliðar og 20 heilbrigðisstarfsmenn á vegum samtakanna hafa verið þjálfaðir sérstaklega til þess þar í landi. Á heimsvísu styðja samtökin við um hálfa milljón heilbrigðisstarfsmanna í 44 löndum. Samtökin leggja áherslu á að veita nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og er markmiðið að þjálfa 100 þúsund til viðbótar á næstu sex mánuðum.

Þessi veira mun reyna á okkur á þann hátt sem við höfum aldrei kynnst áður. Fjöldi fjölskyldna út um allan heim mun ekki hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu eða hreinu vatni. Við verðum að tryggja að þetta fólk fái stuðning og allar þær upplýsingar sem það þarf til þess að vernda sig. Að styðja við börn í fátækustu ríkjum heims gegnir mikilvægu hlutverki við að hefta útbreiðslu vírussins á heimsvísu. Þetta er mikilvægt fyrir alla því í raun er enginn öruggur fyrr en allir eru öruggir, segir Ashing.

Nánari upplýsingar má finna á www.barnaheill.is/neydarkall_covid19 

 

 

*Nöfnum hefur verið breytt.