Staf­rænn for­eldra­fundur um net­öryggi barna, þér er boðið

Næstum öll börn í grunn- og framhaldsskóla á Íslandi eiga eiginn snjallsíma og eru þátttakendur í hinum stafræna heimi. Sú staðreynd er að mestu mjög jákvæð því börn eiga rétt á þátttöku í samfélaginu, þau eiga rétt til að fá upplýsingar og þau njóta margra annarra réttinda samkvæmt Barnasáttmálanum sem aðgangur að internetinu auðveldar þeim að sækja.

Það þarf þó ekki að segja neinum það nú til dags að því fylgja ekki aðeins jákvæðar hliðar að vera nettengd og að eiga snjalltæki, þó það feli í sér endalaus tækifæri til að rækta vináttu, fjölskyldutengsl, að fræðast og leika sér. Því fylgja líka margar ólíkar áskoranir sem fullorðið fólk, sér í lagi foreldrar, þarf að vera vakandi fyrir og flestir foreldrar gera sér grein fyrir því.

Helst af öllu þarf samfélagið að koma í veg fyrir að börn verði fyrir áföllum, ofbeldi, slysum, áreitni eða hatursfullum samskiptum, því eins og með réttinn til þátttöku þá eiga börn rétt á vernd gegn ofbeldi og okkur ber öllum að skapa eins heilbrigt umhverfi fyrir börn og mögulegt er. En enginn einn getur séð um það verkefni heldur er það samfélagsverkefni sem öll geta tekið þátt í og ættu að gera eftir bestu getu.

Tilkynningum til Ábendingalínu Barnaheilla, þangað sem hægt er að tilkynna um ólöglegt og óviðeigandi efni á neti sem varðar börn, hefur fjölgað margfalt á þessu ári. Því fögnum við, því það merkir að fleiri og fleiri eru meðvitaðri um mikilvægi þess að tilkynna um slíkt efni og jafnframt eru meiri líkur á að börnum sé komið til hjálpar. Efnið er oft hægt að fjarlægja af netinu og líklegra er að þau börn sem málin varða fái stuðning til að vinna úr þeirra neikvæðu reynslu.

Fræðsla um forvarnir gegn ofbeldi er afar mikilvæg fyrir alla foreldra. Með fræðslu aukum við sjálfsöryggi okkar og öðlumst skilning, verðum færari í að vera til staðar fyrir börnin okkar og hjálpum þeim að segja frá því ef þau eiga í erfiðleikum.

Stafrænn foreldrafundur um netöryggi barna verður haldinn miðvikudaginn 23. nóvember í hádeginu, kl. 12:00. Foreldrar eru hvattir til að mæta á fundinn og bjóða samstarfsfélögum með sér.

Verið öll velkomin á foreldrafundinn og slóðin er: https://fb.me/e/3NspsPBRN

Greinin er skrifuð í tilefni samvinnu Barnaheilla, Heimilis og skóla, SAFT, 112 og Ríkislögreglustjóra um aðgerðir gegn stafrænu ofbeldi.

Grein birtist á Vísi.is þann 21. nóvember 2022


Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru hluti af alþjóðasamtökunum Save the Children sem vinna að réttindum og velferð barna með barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Barnaheill eru leiðandi afl í að breyta viðhorfum og verklagi varðandi málefni barna. Framtíðarsýn Barnaheilla er heimur þar sem sérhvert barn hefur tækifæri til að lifa og þroskast, fær gæðamenntun, lifir öruggu lífi og hefur tækifæri til að hafa áhrif.
Við stöndum vaktina í þágu barna og gætum réttinda þeirra.