Stigmagnandi átök við landamæri Sýrlands ógna börnum á flótta

Árásir yfir landamæri Sýrlands á flóttamannabúðir í Tyrklandi eru mikið áhyggjuefni og ógna öryggi sýrlenskra barna. Fjöldi sýrlenskra flóttamanna til Tyrklands og Líbanon hefur aukist gífurlega síðustu daga á sama tíma og átök harðna og vonir um vopnahlé dvína. Ástandið er grafalvarlegt fyrir fjölskyldur og börn sem flúið hafa átökin í Sýrlandi og leitað skjóls í flóttamannabúðum í nágrannalöndunum.

Árásir yfir landamæri Sýrlands á flóttamannabúðir í Tyrklandi eru mikið áhyggjuefni og ógna öryggi sýrlenskra barna. Fjöldi sýrlenskra flóttamanna til Tyrklands og Líbanon hefur aukist gífurlega síðustu daga á sama tíma og átök harðna og vonir um vopnahlé dvína.

Fimm manns særðust í tyrkneskum flóttamannabúðum og líbanskur kvikmyndatökumaður var skotinn á landamærunum í fyrradag. Ástandið er grafalvarlegt fyrir fjölskyldur og börn sem flúið hafa átökin í Sýrlandi og leitað skjóls í flóttamannabúðum í nágrannalöndunum.

„Börn eru drepin og særð í átökunum og mörg eru vitni að atburðum sem ekkert barn ætti nokkurn tíman að sjá,“ sagði Justin Forsyth, framkvæmdastjóri Save the Children; „Börnin sem starfsfólk okkar tekur á móti í Líbanon eru í miklu áfalli eftir það sem þau hafa þurft að ganga í gegnum. Miðað við þá óvissu sem ríkir um þróun mála í Sýrlandi er nauðsynlegt að börnum sem leita skjóls í flóttamannabúðum sé veitt vernd gegn ofbeldinu og þau geti verið örugg. Frjáls og óheftur aðgangur mannúðarsamtaka verður að vera í forgangi.“

Save the Children hefur stutt rúmlega 1.500 sýrlensk flóttabörn við landamæri Jórdaníu og Líbanon með því að veita þeim menntun og aðgang að barnvænum svæðum þar sem þau geta einnig leikið sér. Samtökin eru auk þess að hjálpa hundruðum barna til viðbótar að sætta sig við það ömurlega ástand sem þau hafa mátt þola. Sérþjálfaðir félagsfræðingar heimsækja fjölskyldur og dreifa mat til barnshafandi kvenna og nýbakaðra mæðra og lyfjum og fötum til barna og ungbarna. Samtökin vinna einnig að því að efla vitund fólks um hættuna sem fylgir afleiðingunum af því að börn detti út úr daglegri rútínu sinni.

Barnaheill – Save the Children stendur nú fyrir alþjóðlegri undirskriftasöfnun til að knýja á um frjálsan og óheftan aðgang mannúðarsamtaka svo unnt sé að tryggja börnum og fjölskyldum þeirra í Sýrlandi þá hjálp sem þau þarfnast.