Stöðvum stríð gegn börnum 100 ára afmælisátak Barnaheilla – Save the Children á Íslandi

 Barnaheill – Save the Children á Íslandi standa fyrir afmælisátakinu allan októbermánuð. Allur ágóði átaksins rennur til verkefna Barnaheilla í Sýrlandi og Jemen sem snúa að mataraðstoð, menntun, heilbrigðisþjónustu og sálrænum stuðningi við börn.  Forsetahjónin herra Guðni Th. Jóhannesson og frú Eliza Reid munu hleypa átakinu af stokkunum í Smáralind föstudaginn 4. október kl. 16:00. Munu þau „undirrita“ yfirlýsingu um að stöðva stríð gegn börnum á táknrænan hátt með því að setja handarfar sitt á stóran glervegg sem hefur verið settur upp í Smáralind. Börn og fjölskyldur þeirra eru hvött til að gera slíkt hið sama helgina 4.-6. október.


Heimurinn á í stríði sem börn bera hitann og þungann af, það verður að stöðva! 

100 ár eru liðin frá því að Eglantyne Jebb stofnandi Save the Children skoraði á heiminn að stöðva stríð gegn börnum, hún sagði öll stríð vera stríð gegn börnum. Það er óásættanlegt að núna heilli öld síðar hafi okkur ekki enn tekist að vernda berskjölduðustu þegna okkar frá hörmungum stríðs og að fleiri börn búi við stríð í dag en fyrir 100 árum. Í dag eru stríð í ríkjandi mæli ekki á milli ríkja heldur innan þeirra og oft á tíðum flókin með mörgum deiluaðilum. Þau eru grimm og langvarandi, heltaka heilu fjölskyldurnar, samfélögin og þjóðirnar. Leggja undir sig stór landsvæði, í fjöldamörg ár – granda stundum heilu kynslóðunum.

Stríð eru í fjölmiðlum á hverjum degi en sífellt minna er gert til að draga þá sem fremja glæpina til ábyrgðar. Við heyrum sögur af stríðsherrum og einræðisherrum, unnum bardögum og töpuðum landsvæðum. Eitt lykilatriði virðist þó oft gleymast: í stríðum dagsins í dag eru það börn, milljónir barna, sem bera hitann og þungann af meiðslum, harmi og dauðsföllum þessara stríða. Á átakasvæðum úti um allan heim eru börn að upplifa ólýsanlegar hörmungar með hrikalegum afleiðingum, líkamlegum og andlegum, sem hafa áhrif á þau fyrir lífstíð.

• Meira en 420 milljónir barna búa við stríð, það gerir 1 af hverjum 5 börnum í heiminum í dag! Aldrei síðustu 20 ár hafa þau verið í meiri hættu á að verða fyrir skaða. Börn eru sprengd, skotin, svelt og þeim nauðgað.

• 3 af hverjum 4 dauðsföllum í átökum verða vegna sprengivopna.

• Áætlað er að í það minnsta 550 þúsund kornabörn hafi látið lífið vegna stríðsátaka á árunum 2013 til 2017 í þeim 10 löndum þar sem hvað mest átök hafa geisað samkvæmt greiningu Barnaheilla – Save the Children. Það eru að meðaltali yfir 100 þúsund börn á ári hverju. Kornabörnin létust vegna óbeinna afleiðinga stríðsátaka, svo sem hungurs, laskaðra innviða og óstarfhæfra sjúkrahúsa, skorts á aðgengi að heilsugæslu og hreinlæti og vegna þess að þeim var neitað um hjálp. 

  • Heildartala látinna barna vegna óbeinna afleiðinga stríðsátaka fer upp í 870 þúsund þegar öll börn fimm ára og yngri eru talin með. Þessar áætlanir eru varlegar að sögn Barnaheilla - Save the Children. 

• Samtökin hafa áætlað, út frá fyrirliggjandi gögnum, að á ofangreindu fimm ára tímabili hafi nærri 175 þúsund hermenn fallið í átökunum sem þýðir að 1 hermaður lætur lífið í átökum á móti 5 ungbörnum af afleiðingum átakanna.  Fullorðnir varpa sprengjum og börn taka afleiðingunum.  Skólar eiga að vera griðastaður þar sem börn eru örugg frá stríði. Það er því miður ekki raunin. Börn verða fyrir árásum á hverjum degi og eru skólar í auknum mæli orðnir skotmörk.

Árið 2017 áttu sér stað 1432 staðfestar árásir á skóla. Stríð gegn börnum munu einungis taka enda þegar við öll – almenningur og yfirvöld, herforingjar og þjóðhöfðingjar – virða að börnum sé haldið utan við stríð. Stjórnvöld verða að taka afstöðu með og fylgja eftir alþjóðasamþykktum sem kveða á um að ólöglegt sé að sprengja upp börn. Þau verða að draga þá sem brjóta gegn börnum til ábyrgðar og veita börnum sem hafa mátt þola þjáningar stuðning. Við skorum á íslensk stjórnvöld að tryggja:

• börnum vernd gegn drápum, limlestingum og hvers kyns ofbeldi.

• börnum vernd gegn því að ganga til liðs við stríðandi fylkingar 

• að engu barni sé neitað um mannúðaraðstoð þegar stríð geisar.

• að skólar og heilsugæslustöðvar séu friðarsvæði og njóti verndar.

• að fylgst sé grannt með brotum gegn réttindum barna í stríði, skýrt sé frá þeim og brugðist við.

• að þeir sem fremja eða bera ábyrgð á ofbeldi gegn börnum, séu látnir svara til saka.


 Eglantyne Jebb sagði að barnsgrátur væri eina alþjóðlega tungumálið í heiminum. 
 Við heyrum grátinn og munum ekki sitja aðgerðalaus.  Stríð gegn börnum verður að stöðva.