Strákar líklegri en stelpur til að hitta ókunnuga á netinu

SAFT stóð fyrr á árinu fyrir gerð könnunar á netnotkun barna og unglinga hér á landi. Markmið könnunarinnar er að afla upplýsinga um notkun barna og unglinga á netinu og nýta í kjölfarið þær upplýsingar til vitundarvakningar um möguleika netsins og örugga netnotkun barna og unglinga. 

Áhættuhegðun Íslenskra barna á netinu

SAFT* stóð fyrr á árinu fyrir gerð könnunar á netnotkun barna og unglinga hér á landi. Markmið könnunarinnar er að afla upplýsinga um notkun barna og unglinga á netinu og nýta í kjölfarið þær upplýsingar til vitundarvakningar um möguleika netsins og örugga netnotkun barna og unglinga. Capacent Gallup sá um framkvæmd könnunarinnar og úrvinnslu niðurstaðna. Niðurstöður könnunarinnar verða kynntar enn frekar á næstu vikum. Meginviðfangsefni SAFT könnunarinnar er að kortleggja notkun barna og unglinga á netinu og öðrum skyldum miðlum. Sambærilegar kannanir undir merkjum SAFT hafa verið gerðar hér á landi árin 2003, 2007 og 2009 og líkt og áður voru nú lagðar spurningar fyrir bæði börn og foreldra. Framkvæmdin í ár var þó með töluvert breyttu sniði frá því áður og niðurstöðurnar því ekki fyllilega samanburðarhæfar við fyrri mælingar á öllum þáttum.


Áhættuhegðun
• Hluti SAFT könnunarinnar var tileinkaður áhættu á netinu og voru börnin spurð um ýmsa hegðun sem gæti talist áhættuhegðun s.s. að leita að nýjum vinum á netinu, hitta fólk augliti til auglitis sem þau kynntust fyrst á netinu og fara inn á vefsíður með ólöglegu efni eða hættulegu athæfi.
• Nokkuð algengt var að börnin leituðu að nýjum vinum á netinu en ríflega helmingur barnanna eða 52,7%, hafði einhvern tímann á sl. 12 mánuðum leitað að nýjum vinum á netinu. Tæplega 12% höfðu leitað að nýjum vinum tvisvar í viku eða oftar.
• Samtals hafði naumlega þriðjungur barna og unglinga á sl. 12 mánuðum bætt við/addað vinum sem þau höfðu aldrei hitt augliti til auglitis. Rúm 4% höfðu samþykkt nýja vini tvisvar í viku eða oftar á sl. 12 mánuðum.
• Rúmlega 22% höfðu einhvern tímann á sl. 12 mánuðum haft samband við einhvern sem þau höfðu ekki hitt í eigin persónu. Rúm 5% höfðu gert það tvisvar í viku eða oftar.
• Samanborið við fyrri SAFT kannanir höfðu mun færri börn látið sem þau væru einhver önnur en þau raunverulegu eru, sent mynd eða vídeó af sér til einhvers sem þau höfðu ekki hitt í eigin persónu eða sent persónulegar upplýsingar til einhvers sem þau höfðu ekki hitt í eigin persónu.
• Rúm 10% höfðu einhvern tíma á sl. 12 mánuðum látið sem þau væru önnur en þau raunverulega eru. Tæplega 9% höfðu sent mynd eða vídeó af sér til einhvers sem þau höfðu ekki hitt í eigin persónu og slétt 8% höfðu sent persónulegar upplýsingar t.d. fullt nafn, heimilisfang eða símanúmer til einhvers sem þau höfðu aldrei hitt augliti til auglitis.